Neyðarblys bjargaði manninum

Maðurinn lenti í vandræðum á sæþotu nokkuð utan við Landeyjahöfn.
Maðurinn lenti í vandræðum á sæþotu nokkuð utan við Landeyjahöfn. mbl.is/Rax

Maðurinn sem lenti í vandræðum á sæþotu skammt frá Landeyjahöfn fyrr í kvöld féll ekki í sjóinn heldur varð eldsneytislaus og komst því ekki í land. Maðurinn var með neyðarblys meðferðis og gat þannig gert björgunarsveitum viðvart.

„Við sáum blys frá honum þegar við erum á leiðinni í átt frá Landeyjahöfn og hann er þá töluvert austar en við þannig að við tökum bara stefnuna þangað og erum fljótir til hans,“ Kjartan Vídó Ólafsson hjá Björgunarfélagi Vestmannaeyja í samtali við mbl.is.

Þar sem björgunarbáturinn Þór frá Björgunarfélaginu var staddur í öðru útkalli við Þjórsárósa fékk björgunarsveitin bát frá fyrirtækinu Rib Safari til umráða og gat þannig komið manninum til bjargar. Vill Kjartan fyrir hönd Björgunarfélagsins í Vestmannaeyjum skila bestu þökkum til Rib Safari fyrir lánið á bátnum.

„Við fundum hann sem betur fer bara fljótt og drógum hann í land. Hann var heill heilsu og ekkert blautur eða kaldur eða neitt þannig þetta gekk eins vel og hægt er,“ segir Kjartan. Maðurinn var tekinn um borð í bátinn og siglt með hann og sæþotuna í eftirdragi til Vestmannaeyja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert