Allt á fullu hjá Gógó

„Ég klæddi mig fyrst upp sem Gógó Starr árið 2010,“ …
„Ég klæddi mig fyrst upp sem Gógó Starr árið 2010,“ segir Sigurður en hann tók sín fyrstu skref sem dragdrottningin Gógó Starr í heimabænum Akureyri. Ljósmynd/Kaspars Bekeris

„Það er allt á fullu hjá Gógó,“ segir Sigurður Heimir Guðjónsson, eða dragdrottningin Gógó Starr, en hún er í dag ríkjandi dragdrottning Íslands. Sigurður sem er stofnandi draghópsins Drag-Súgs er nýkomin úr sex vikna sýningarferðalagi, sem Gógó Starr, um Bandaríkin og safnar nú fyrir öðru slíku um Evrópu, með Margréti Erlu Maack dansmey.

„Nú erum við á fullu að gera og græja fyrir Gleðigönguna á fimmtudaginn. Við erum partur af opnunarhátíð Hinsegin daga á fimmtudaginn,“ segir hann og bætir við að sama dag muni Gógó Starr einnig koma fram í kabarett-sýningu. Dragsýningin „Drag-Súgur Extravaganza“ verður svo haldin daginn eftir, þar sem fjöllistafólk hópsins mun sýna listir sínar.

„Gleðigangan sjálf er síðan á laugardaginn og svo stígum við á stóra sviðið eftir gönguna. Ég mun svo ekkert svara símanum á sunnudaginn heldur verð ég bara dauður upp í rúmi einhvers staðar,“ segir Sigurður hlæjandi.

Auk dagskrár Hinsegindaga stendur Sigurður nú ásamt dansmærinni Margréti Erlu …
Auk dagskrár Hinsegindaga stendur Sigurður nú ásamt dansmærinni Margréti Erlu Maack fyrir hópfjármögnun á síðunni Karolina Fund. Þar safna þau fyrir sýningarferðalagi um Evrópu í júlí og ágúst á næsta ári. Ljósmynd/Bjarni Óskarsson

Stjörnur hópsins sýna sín bestu atriði

Á föstudaginn heldur Drag-Súgur sína stærstu sýningu til þessa í Iðnó til að fagna Hinsegin dögum. Hópurinn hélt svipaða sýningu á síðasta ári sem sló í gegn: „Það seldist upp í fyrra svo ég mæli með að allir kaupi sér miða sem fyrst,“ segir Sigurður.

Að sögn hans verður þetta enn betra og stærra í ár þar sem helstu stjörnur hópsins munu koma fram í alls sextán atriðum. Sýningin verður samansafn af vinsælum atriðum hópsins: „Þetta eru bestu atriðin frá hverjum og einum,“ segir Sigurður. Kynnar kvöldsins verða Starina og Turner Straight og einnig á hópurinn von á að gestir frá Svíþjóð og Finnlandi komi fram.

Gógó Starr var krýnd dragdrottning Íslands árið 2015 og stuttu …
Gógó Starr var krýnd dragdrottning Íslands árið 2015 og stuttu síðar stofnuðu „nokkrir frábærir fjöllistamenn“ Drag-Súg í nóvember 2015. Ljósmynd/Ben Strongman

Fyrst tækifærisdrottning fyrir norðan

„Ég klæddi mig fyrst upp sem Gógó Starr árið 2010,“ segir Sigurður en hann tók sín fyrstu skref sem dragdrottningin Gógó Starr í heimabænum Akureyri. „Þá var ég tækifærisdrottning, á hrekkjavöku, öskudag, í ákveðnum partýum og eitthvað, bara svona til að hafa gaman,“ segir hann.

„Ég flyt síðan suður haustið 2014 og einhvern veginn reiknaði ég með því að það væru einhverjar sýningar eða eitthvað sem maður gæti verið partur af,“ segir hann og bætir við: „En ég kemst að því að það er bara ekkert að frétta.“

Helstu forsvarsmenn Drag-Súgs; Sigurður Heimir Guðjónsson, dragdrottningin Gógó Starr (t.v.) …
Helstu forsvarsmenn Drag-Súgs; Sigurður Heimir Guðjónsson, dragdrottningin Gógó Starr (t.v.) og Hafsteinn Himinljómi Regínusson, dragdrottningin Ragnarök (t.h.). Ljósmynd/Sigurður Heimir Guðjónsson

Langaði að styrkja senuna

„Síðan þá var ég rosalega drifinn í að gera meiri senu, langaði að styrkja Hinsegin senuna á Íslandi, sem mér fannst rosalega lítil og sérstaklega dragsenuna, sem var engin,“ segir Sigurður.

Gógó Starr var krýnd dragdrottning Íslands árið 2015 og stuttu síðar stofnuðu „nokkrir frábærir fjöllistamenn“ Drag-Súg í nóvember 2015, með Sigurð og Hafstein Himinljóma Regínusson, eða dragdrottningin Ragnarök, í forsvari.

Síðan þá hefur hópurinn haldið mánaðarleg kvöld, sem hafa slegið rækilega í gegn. Aðspurður segir Sigurður það hafa komið sér á óvart: „Þetta kom mér mjög skemmtilega á óvart því þegar við vorum að byrja þá vissum við ekkert hvort þetta væri bara einsýning eða hvað. Við vissum ekki hvernig fólk myndi taka í þetta.“

Á föstudaginn heldur Drag-Súgur sína stærstu sýningu til þessa í …
Á föstudaginn heldur Drag-Súgur sína stærstu sýningu til þessa í Iðnó til að fagna Hinsegin dögum. Hópurinn hélt svipaða sýningu á síðasta ári sem sló í gegn. Ljósmynd/Kaspars Bekeris

Samfélag fyrir listamenn

Mikilvægi Drag-Súgs að mati Sigurðar liggur í því að vera samfélag fyrir listamenn. Sjálfur hafi hann þróast mikið síðan hópurinn byrjaði: „Ég er búin að þróast mikið og læra svo mikið af öllu þessu mismunandi fólki,“ segir hann. „Það hjálpar öllum svo mikið að vaxa og dafna að hafa þetta samfélag af fólki,“ bætir hann við.

Hann segir að Gógó Starr sé nýkomin úr öðru sýningarferðalagi. Þar hafi hún kynnst öðrum listamönnum annarrar senu. Afleiðingin sé stærsta „karakterstökk“ til þessa: „Ég lærði svo mikið og dafnaði sem listamaður og er það ekki það sem alla listamenn langar að gera?“ 

Auk dagskrár Hinsegindaga stendur Sigurður nú ásamt dansmærinni Margréti Erlu Maack fyrir hópfjármögnun á síðunni Karolina Fund. Þar safna þau fyrir sýningarferðalagi um Evrópu í júlí og ágúst á næsta ári. Skipulögð hefur verið Farvel-sýning í Reykjavík, fyrir ferðalagið, einhvern tímann í maí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert