Þrjú kynferðisbrot í Eyjum

Þjóðhátíðargestir í Herjólfsdal. Lögregla telur um 16.000 manns hafa sótt …
Þjóðhátíðargestir í Herjólfsdal. Lögregla telur um 16.000 manns hafa sótt þjóðhátíð þetta árið. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Þrjú kynferðisbrotamál eru til rannsóknar hjá Lögreglunni í Vestmannaeyjum eftir Verslunarmannahelgina. Þetta kemur fram í færslu á Facebook-síðu lögreglunnar, sem segir þetta vera þann fjölda kynferðisbrota sem lögregla hafi nú til rannsóknar.

Tilkynnt var um eitt brot aðfaranótt laugardags, á tjaldsvæðinu í Herjólfsdal. Meinur brotaþoli og gerandi þekkjast og var gerandinn handtekinn skömmu eftir tilkynningu lögreglu. Kæra liggur ekki fyrir í málinu.

Tilkynnt var um tvö kynferðisbrot aðfaranótt sunnudags, annað brotið á að hafa átt sér stað á laugardagsmorgninum í heimahúsi en hitt á tjaldstæðinu í Herjólfsdal. Í báðum tilfellum þekkjast meintur brotaþoli og gerandi og voru gerendur handteknir skömmu eftir tilkynningu lögreglu. Kæra liggur fyrir í hvorugu þessara mála.

47 fíknefnamál og átta líkamsárásir

Í færslu lögreglu kemur fram að talið sé að 16.000 manns hafa sótt þjóðhátíð þetta árið og að hátíðin sé með þeim stærstu sem haldin hafa verið. 25 lögreglumenn sinntu löggæslu, auk 150 gæslumanna sem lúta stjórn lögreglu. Þá stóðu tveir sérsveitarmenn Ríkislögreglustjóra einnig vaktina á þjóðhátíð að þessu sinni og sex óeinkennisklæddir lögreglumenn sinntu fíkniefnaeftirliti og höfðu sér til aðstoðar fíkniefnaleitarhunda

Heildarfjöldi fíkniefnamála þetta árið voru 47, sem er nokkuð fleiri en í fyrra þegar þau voru 30, en töluvert færri en 2015 þegar þau voru 72 talsins. Segir lögregla vera grun um sölu- og dreifingu í  tveimur þessara mála.

Mest var haldlagt af hvítum efnum og „óvenju lítið af öðru“, segir í færslunni og talið að mögulega kunni viðvera fíkniefnahunda á svæðinu að hafa áhrif á hvaða efni fólk hafi meðferðis.

Er lögregla ánægð með árangurinn og telur það sýna sig að öflugt fíkniefnaeftirlit skili árangri.

Átta líkamsárásir komu inn á borð lögreglu þessa helgi, þar af tvær alvarlegar þar sem um beinbrot í andliti er að ræða. Eitt heimilisofbeldismál kom upp og eitt brot gegn valdstjórn þar sem veist var að lögreglumanni. Tvö húsbrot, þrjú eignaspjöll, tveir þjófnaðir og sjö brot vegna ölvunar og óspekta.

Þá voru 17 teknir fyrir ölvunarakstur á mánudeginum og akstur um 30 bíla stöðvaður á Landeyjahafnarvegi í umferðareftirliti lögreglunnar á Suðurlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert