Átta kynferðisbrot verið tilkynnt

Fjögur brot voru framin á Þjóðhátíð í Eyjum.
Fjögur brot voru framin á Þjóðhátíð í Eyjum. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Átta kynferðisbrot hafa verið tilkynnt um og eftir verslunarmannahelgina, og þar af sjö tengd útihátíðum. Þetta staðfestir Hrönn Stefánsdóttir, verk­efna­stjóri neyðar­mót­töku fyr­ir þolend­ur kyn­ferðisof­beld­is á Land­spít­ala. 

Fimm leituðu á neyðarmóttökuna um og eftir helgina, en Hrönn hefur einnig veitt ráðgjöf í einu máli til viðbótar. Þá hefur hún fengið upplýsingar um hin málin tvö.

Fjögur kynferðisbrot í Eyjum

Fjögur brotanna voru framin í Vestmannaeyjum, tvö á Suðurlandi og eitt á höfuðborgarsvæðinu.

Er þetta aukning frá því um verslunarmannahelgina í fyrra þegar sex brot komu upp, og eitt var tengt útihátíð. Spurð um þessa aukningu segist Hrönn halda að hún stafi af vitundarvakningu um kynferðisbrot í samfélaginu, og þá staðreynd að brotaþolar viti að þeir geti leitað sér aðstoðar.

Bæði mál­in á Suður­landi komu upp á tjaldsvæðum og eru þau til rann­sókn­ar hjá lög­reglu og var alla­vega einn maður hand­tek­inn í tengsl­um við seinna málið.

Eng­inn er þó enn í haldi, en vitað er hverj­ir hinir grunuðu eru.

Lögreglan í Vestmannaeyjum sagði á Facebook-síðu sinni í gær að þrjú kynferðisbrotamál væru þar til rannsóknar eftir helgina.

Til­kynnt hafi verið um eitt brot aðfaranótt laug­ar­dags, á tjaldsvæðinu í Herjólfs­dal og hinn grunaði handtekinn. Þá hafi verið tilkynnt um tvö kynferðisbrot til viðbótar aðfaranótt sunnudags. Átti annað brotið sér stað á laug­ar­dags­morgn­in­um í heima­húsi en hitt á tjald­stæðinu í Herjólfs­dal. Voru hinir grunuðu einnig handteknir í þeim málum, en ekki hafa verið lagðar fram kærur vegna málanna.

Met­fjöldi mála á ein­um mánuði kom á borð neyðar­mót­tök­unn­ar í júlí, þegar tutt­ugu og átta manns leituðu þangað. Sam­tals hef­ur 41 ein­stak­ling­ur leitað til neyðar­mót­tök­unn­ar í júní og júlí, og 110 það sem af er ári. Í fyrra leituðu fleiri en nokkru sinni á neyðar­mót­tök­una, en þá voru 169 kom­ur skráðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert