Efnir loforð og hleypur fyrir dóttur sína

Elín Björk Gísladóttir ásamt dóttur sinni, Helgu Ingibjörgu Þorvaldsdóttur.
Elín Björk Gísladóttir ásamt dóttur sinni, Helgu Ingibjörgu Þorvaldsdóttur. Úr einkasafni

„Ég hleyp fyrir dóttur mína sem getur ekki hlaupið sjálf,“ segir Elín Björk Gísladóttir, móðir Helgu Ingibjargar Þorvaldsdóttur, sem var hætt komin eftir alvarlegt bílslys á Hrútafjarðarhálsi fyrir um 19 mánuðum. Elín ætlar að hlaupa tíu kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu á laugardag til styrktar hollvinum Grensáss.

Helga margbrotnaði í slysinu og fékk miklar innvortis blæðingar svo henni var vart hugað líf. Í kjölfar flókinna aðgerða, þar sem brotinn líkami hennar var m.a. skrúfaður saman, komst hún til meðvitundar og hóf endurhæfingu á Grensásdeild. „Þess vegna hleyp ég fyrir hollvini Grensáss,“ segir Elín Björk. „Þar var henni hjálpað til að byrja að ganga upp á nýtt og fékk alla þá aðstoð sem hún þurfti til að komast út í lífið aftur. Það var ekkert annað en kraftaverk. Þarna er unnið frábært og ómetanlegt starf.“

Helga Ingibjörg var á leið frá Ólafsfirði í vinnuna í Staðarskála að kvöldi 3. janú­ar árið 2016 er slysið varð. Á Hrúta­fjarðar­hálsi lenti hún í árekstri við ann­an bíl sem fór inn í hlið bíls­ins henn­ar. Unnusti hennar, Sigurður Loftur Jóhannsson, kom fyrstur á slysstað en þau höfðu verið í samfloti á sitt hvorum bílnum frá Akureyri. Sigurður hringdi í Neyðarlínuna og sjúkrabíll var sendur á vettvang sem flutti Helgu til móts við þyrlu sem beið hennar við Staðarskála. En í sjúkra­bíln­um hætti hún að anda og hefja þurfti end­ur­lífg­un. „Þeir misstu mig næst­um því, ég var við það að deyja,“ sagði Helga Ingibjörg í samtali við mbl.is á síðasta ári. Helga var svo flutt á Landspítalann þar sem hún gekkst undir aðgerðir til að stöðva blæðingarnar. 

Óvíst hvort hún myndi ganga á ný

Hún reyndist brot­in á átta stöðum, m.a. á lær­legg, mjaðmagrind og brjóst­kassa. Þá var rassvöðvi slit­inn, nýra skemmt og einnig blæddi inn á lunga henn­ar. Næstu sól­ar­hringa var Helgu haldið sof­andi í önd­un­ar­vél. Frá upp­hafi var óvíst væri hvort hún myndi ganga að nýju. En skömmu eftir að hún losnaði úr öndunarvélinni hreyfði hún fótinn og eftir margra vikna dvöl á Landspítalanum fór hún á Grensásdeild þar sem við tók löng og ströng endurhæfing. Í apríl á síðasta ári steig hún svo í annan fótinn á ný og fljótlega var hún farin að ganga. 

Röntgenmynd af kviðarholi Helgu. Tvær skrúfur voru settar í spjaldbeinið. …
Röntgenmynd af kviðarholi Helgu. Tvær skrúfur voru settar í spjaldbeinið. Í grindina var svo sett plata með níu skrúfum, sumum 12 sentímetra löngum. Í lærlegginn og mjöðmina var einnig sett skrúfa, en það var gert í fyrstu aðgerðinni, rétt eftir slysið.

Á von á barni

Fleiri kraftaverk hafa orðið í lífi Helgu undanfarna mánuði. Hún er ólétt og eiga þau Sigurður Loftur von á barninu í janúar. „Þannig að þetta er eitt kraftaverkið til viðbótar,“ segir Elín. 

Helga Ingibjörg var að vonum mjög ánægð að heyra að móðir hennar ætlaði að hlaupa fyrir hana í Reykjavíkurmaraþoninu. Ákvörðunin var tekin fyrir tæpum fimm vikum og síðan þá hefur Elín æft sig samviskusamlega. „Ég hef aldrei verið nein hlaupamanneskja en mig hefur alltaf dreymt um að hlaupa.“

Elín ásamt dóttur sinni, Helgu. Helga komst loks í hjóla­stól …
Elín ásamt dóttur sinni, Helgu. Helga komst loks í hjóla­stól mörg­um vik­um eft­ir slysið. Úr einkasafni

Þorsteinn Jóhannesson, föðurafi Helgu, var mikill íþróttamaður og stundaði hlaup. „Þegar hann byrjaði að hlaupa fyrir einhverjum tuttugu árum sagði ég við hann að ég ætlaði einhvern tímann að taka þátt í svona maraþoni,“ segir Elín. Þorsteinn og Helga voru mjög náin en hann lést fyrir nokkrum árum. „Ég ákvað svo að standa við þetta loforð og hlaupa fyrir dóttur mína.“

Staðráðin í að halda hlaupum áfram

Elín gengur mikið og stundar reglulega líkamsrækt. Hlaupaþolið var þó ekki upp á marga fiska er hún fór að æfa sig uppi á Kleifum við Ólafsfjörð þar sem hún býr. „Þarna er stikuð leið og í fyrsta skiptið sem ég hljóp komst ég hlaupandi milli tveggja stika og gekk svo jafnlangt,“ segir hún hlæjandi. En með reglulegri æfingu hefur vegalengdin sem hún hleypur lengst hratt og í dag, mánudag, hljóp hún átta kílómetra og stefnir á að hlaupa tíu á miðvikudag. Svo tekur við hvíld fram að stóra deginum.

Elín Björk segir hlaupin hafa gert sér gott og að hún sé staðráðin í því að halda áfram að hlaupa. „Ég hélt að ég væri enginn hlaupari en það geta allir gert þetta ef þeir æfa sig reglulega, “ segir Elín um reynslu sína. Hún hefur hlaupið þrisvar sinnum í viku og bætt sig í hvert sinn. „Þetta verður ekkert mál, ég hleyp þessa tíu kílómetra. Kannski enda ég í hálfu maraþoni?“ segir hún hlæjandi.

Elín mun á laugardag hlaupa í nýjum skóm sem Helga Ingibjörg gaf henni. Dóttir hennar mun svo að sjálfsögðu standa við hliðarlínuna og hvetja móður sína áfram, rétt eins og móðir hennar studdi hana með öllum ráðum í erfiðu og sársaukafullu bataferli í kjölfar slyssins.

Styrktarsíða Elínar Bjarkar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert