Nútímahippinn sem réttir hjálparhönd

Þrátt fyrir mikið annríki er Sverrir mikill fjölskyldumaður.
Þrátt fyrir mikið annríki er Sverrir mikill fjölskyldumaður.

Sverrir Björn Þráinsson er að eigin sögn eini starfandi grenningarráðgjafi Íslands. Hann hefur aðstoðað fjölmarga við að ná betri árangri í baráttunni við aukakílóin en sjálfur glímdi Sverrir við offitu á yngri árum. Fyrir þremur árum lagðist hann svo í flakk um Evrópu ásamt konu sinni og fjórum börnum og hafa þau nú komið sér vel fyrir á fallegu sveitasetri á Spáni.

„Það sem kveikti áhuga minn á þessu er sú staðreynd að ég hef glímt við þennan vágest sem offitan er á öllum sviðum, meiripart míns lífs frá barnæsku,“ segir Sverrir Björn Þráinsson en hann er að eigin sögn eini starfandi grenningarráðgjafinn á Íslandi. Sverrir segir það enga tilviljun að hann ákvað að leggja starf grenningarráðgjafa fyrir sig. „Þegar ég var sem verst haldinn, þá tæplega 140 kg, leitaði ég til næringarráðgjafans Ólafs G. Sæmundssonar. Við funduðum reglulega í einhvern tíma og það skilaði góðum árangri. Ég verð honum ævinlega þakklátur fyrir það. Út frá þessum fundum okkar Ólafs vaknaði frumkvöðullinn í mér sem ég held þó að hafi alltaf blundað í mér að einhverju leyti. Ég hef sjaldan getað fetað stigin fótspor án þess að marka eitthvað nýtt í þau,“ segir Sverrir.

Allt gert í gegnum netið

Samheldin. F.v. Súsanna Rós, tvíburarnir Stefán Björn og Sandra Rós, …
Samheldin. F.v. Súsanna Rós, tvíburarnir Stefán Björn og Sandra Rós, og Benjamín Björn. Krakkarnir hafa ferðast víða á fáeinum árum.


Leið hans lá til Kaupmannahafnar þar sem hann stundaði nám í greiningarmiðaðri næringarráðgjöf. „Það sem vantaði upp á hjá mér var andlega hliðin. Sálfræðin á bak við vandamálið sem virtist alltaf koma upp aftur og aftur. Þá kom upp þessi hugmynd að grenningarráðgjafanum. Að veita aðstoð við andlega uppbyggingu, koma á góðri rútínu, fyrirgefa fortíðinni og annað í þeim dúr.“ Starf Sverris sem grenningarráðgjafi felst fyrst og fremst í því að hjálpa fólki að ná fótfestu í lífinu með einfaldri þriggja þrepa dagbók. „Fólk þarf að senda mér matar- og hreyfingardagbók, ásamt því að senda vikusamantekt eftir hverja viku. Ef fólk gerir það samviskusamlega nær það árangri. Samningstíminn er 12 vikur, annað væri of stutt til þess að marka árangur til lengri tíma. Ég óska hins vegar ekki eftir vigtun matvæla, ég hef sérhæft mig í því að reikna út skammtadagbækur og vinn með lýsingu máltíða og því algjör óþarfi fyrir fólk að vigta matinn sinn fyrir hverja skráningu.“ Spurður hvort fólk þurfi að mæta til hans svarar hann neitandi.

„Þetta er allt saman rafrænt, það er engin mæting, engin líkamsræktarstöð. Eingöngu samskipti í gegnum dagbækur á persónulegan og þægilegan hátt fyrir þann sem hefur gengið veginn oftar en einu sinni.“ Að sögn Sverris er alltaf nóg að gera. „Fyrst um sinn var ég með tíu til fimmtán einstaklinga en kúnnahópurinn hefur vaxið samhliða reynslu minni og þekkingu. Ég er núna með um 100 einstaklinga hverju sinni og það hefur reynst mjög vel. Þetta er full vinna frá morgni til kvölds.“

Ferðast mikið með börnin

Sverrir Björn og Sara Rós eru samheldin hjón sem njóta …
Sverrir Björn og Sara Rós eru samheldin hjón sem njóta lífsins á ferðalagi þrátt fyrir miklar annir.


Eins og áður hefur komið fram er Sverrir mikill fjölskyldumaður. „Börnin eru orðin fjögur talsins. Það er alveg ótrúlegt hvað þau hafa tekið vel í þessa flutninga. Við fluttum til Svíþjóðar árið 2014 þar sem við dvöldum í þrjú ár og ferðuðumst mikið um Evrópu á þeim árum. Þetta var ein besta ákvörðun sem við höfum tekið, að flytjast búferlum til Svíþjóðar með stóra fjölskyldu, því Svíþjóð er mikið fjölskylduland. Að þessum þremur árum liðnum ákváðum við í sexfaldri sameiningu að við vildum kynnast annarri menningu og nýjum slóðum og því var enn á ný pakkað niður og förinni heitið til Spánar, þar sem við erum núna búsett á fallegu sveitasetri á Costa Blanca-svæðinu.“ Spurður hvernig það sé að ferðast með fjögur börn segir Sverrir það vera lítið mál.

„Krakkarnir hafa visst ákvarðanavald í öllu því sem við gerum, allar skoðanir eru metnar jafnt og við myndum aldrei leggjast í svona flakk án þeirra samþykkis. Börnin eru núna orðin fjórtyngd, tala reiprennandi íslensku, ensku, sænsku og eru núna að ljúka tveggja þrepa spænskunámi sem gengur mjög vel, enda miklir víkingar öll sömul. Það má eiginlega segja að við séum nútímaútgáfan af hippum.“

Upplýsingar um ráðgjöf

Sverrir Björn Þráinsson hefur starfað sem grenningarráðgjafi frá árinu 2012. Á þeim árum hafa hátt í 5.000 manns leitað til hans og hafa þeir flestir náð góðum árangri. Að sögn Sverris geta allir sett sig í samband við hann með því einfaldlega að senda tölvupóst á netfangið sverrir@grenningarradgjof.com eða í gegnum bókunarnetfangið kaloriur@gmail.com. Þá heldur hann einnig úti facebooksíðu sem finna má undir heitinu facebook.com/grenningarradgjafinn. Öll aðstoð fer fram í gegnum netið og segir Sverrir að það virki oft mjög vel fyrir þá sem eru ef til vill tímabundnir eða hugnast ekki að mæta í ræktina.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert