Leiðbeinendum fjölgar í grunnskólum

Hraunvallaskóli í Hafnarfirði.
Hraunvallaskóli í Hafnarfirði. mbl.is/Styrmir Kári

Búið er að ráða í allar sex stöður grunnskólakennara við Hraunvallaskóla í Hafnarfirði sem voru lausar fyrr í þessum mánuði. Tveir af þeim eru með grunnskólakennarapróf en hinir fjórir eru allir með háskólamenntun og eru titlaðir sem leiðbeinendur þrátt fyrir að nokkrir þeirra séu með réttindi til að kenna í framhaldsskóla og í leikskóla.

„Leiðbeinendum fjölgar í skólanum. Það þarf meiri slaka í þetta kerfi þannig að fólk með kennaramenntun geti farið á milli skólastiga og kennt,“ segir Lars Jóhann Imsland, skólastjóri Hraunvallaskóla. 

Kenn­ara­námið í bæði leik- og grunn­skól­um er fimm ára langt og gef­ur menntamálaráðuneyti út leyf­is­bréf fyr­ir kenn­ara sem veit­ir þeim rétt­indi til að kenna ein­göngu til­tekn­um aldri og á ákveðnu skóla­stigi. Til dæm­is hef­ur leik­skóla­kenn­ari ein­göngu rétt­indi til að kenna börn­um til sex ára ald­urs. 

Þessi ábending skólastjóra Hraunvallaskóla um „meiri slaka á kerfinu“ er ekki ný af nálinni og hefur verið þrýst á að breyta þessu. Þetta kom meðal ann­ars fram á árs­fundi Kenn­ara­sam­bands­ins um nýliðun kenn­ara­stétt­ar­inn­ar sem haldinn var 29. mars síðastliðinn. 

Kristján Þór Júlíusson menntamálaráðherra var á meðal mælenda á þeim fundi og sagði meðal annars að hann hyggðist skoða veitingu leyfisbréfa ráðuneyt­is­ins til kenn­ara með tilliti til þessa. Hann sagði jafnframt að það gæti ekki gengið að fimm ára kenn­ara­nám væri ein­skorðað við ákveðinn ald­ur. 

Munar um 80 þúsund í launum 

Skólastjóri Hraunvallaskóla bendir á að launamunur sé talsverður milli þeirra sem eru með grunnskólakennaramenntun og aðra háskólamenntun. „Leiðbeinandi getur verið að kenna nákvæmlega það sama og sá sem er með grunnskólakennarapróf en verið á um 80 þúsund króna lægri launum þrátt fyrir að vera t.d. með réttindi til að kenna í framhaldsskóla og jafnvel verið með meistaragráðu í ofanálag,“ segir Lars.

Hann bendir á að ef kennari sem hafi lokið háskólanámi í kennslu gæti kennt á hinum ýmsu skólastigum og lækkaði ekki í launum yrði auðveldara að ráða fólk til starfa í grunnskólana.

mbl.is/Eggert

Vantar sjö starfsmenn í skólann

Enn á eftir að ráða sjö starfsmenn í fjögur starfsheiti í Hraunvallaskóla þar á meðal starfsfólk í frístund sem nemendur geta sótt um að dvelja að loknum skóladegi. Enn eru 50 börn á biðlista um að komast í frístund. „Þetta er fljótt að breytast á þessum dögum. Við hvern starfsmann sem bætist í hópinn getum við tekið inn 15 börn,“ segir Lars sem er vongóður um að þetta eigi eftir að leysast fljótlega.   

Í Hraunvallaskóla eru 829 nemendur og að meðaltali eru rúmlega 22 nemendur í bekk. Að sögn Lars hafa bekkir ekki verið stækkaðir til að ráða færri kennara til starfa.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert