Salatið ekki selt í smásölu

mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Salatið sem talið er hafa valdið veikindum starfsmanna í Háaleitisskóla – Hvassaleiti og Hörðuvallaskóla var innflutt blaðsalat frá Ítalíu. Á umbúðunum kom fram að salatið væri óþvegið en nauðsynlegt er að þvo matjurtir og skola fyrir notkun.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá matvælaeftirliti Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur en þar segir einnig að salatið hafi eingöngu ratað í stóreldhús en ekki í smásölu.

Niðurstöður faraldsfræðilegrar rannsóknar leiddu í ljós að sterk tengsl voru milli neyslu á óþvegnu salatinu og veikinda starfsmanna skólanna.

„Rannsóknir á salatinu hafa leitt í ljós hugsanlegan sýkingarvald, bakteríuna Aeromonas hydrophila, sem þekkt er að getur valdið veikindum eins og hér um ræðir. Bakterían finnst víða í umhverfinu, sérstaklega í menguðu vatni og því er mikilvægt að skola allar matjurtir fyrir neyslu,“ ítrekar heilbrigðiseftirlitið.

„Samkvæmt upplýsingum Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur hafa ekki komið upp veikindi á öðrum stöðum en í ofangreindum skólum. Líklegar skýringar á því geta verið að smit sé misdreift í salatinu sem og mismunandi meðferð salatsins hvað varðar skolun.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert