Samninganefnd boðar fundi með BHM

Forystumenn í BHM. Þórunn Sveinbjarnardóttir vonast til að kjarasamningar náist …
Forystumenn í BHM. Þórunn Sveinbjarnardóttir vonast til að kjarasamningar náist í þetta sinn. mbl.is/Styrmir Kári

Samninganefnd ríkisins hefur boðað fundi á næstunni með einhverjum sautján aðildarfélaga Bandalags háskólamanna en úrskurður gerðardóms um kaup og kjör félagsmanna þeirra fellur úr gildi í dag.

Að sögn Þórunnar Sveinbjarnardóttur, formanns BHM, bárust skilaboð frá samninganefnd ríkisins um fundarhöldin í gær. „Við erum að vona að það náist að semja í þetta sinn, að það verði gerðir kjarasamningar,“ segir hún.

Aðspurð segist hún ekki vita hvenær fundarhöldin hefjast. „Þetta eru sautján aðildarfélög. Vonandi gerist það núna á næstu dögum að öll félögin fái sinn fyrsta fund með samninganefndinni.“

„Fastir liðir eins og venjulega“

Þórunn er ósátt við hve langan tíma það hefur tekið fyrir aðildarfélögin að ná fundi með samninganefnd ríksins. „Lögum samkvæmt og samkvæmt undirrituðum viðræðuáætlunum áttu þessar viðræður að hefjast í sumar og þeim átti að vera lokið með samningum fyrir 31. ágúst þegar úrskurður gerðardóms fellur úr gildi. En það eru fastir liðir eins og venjulega, þessi vinnubrögð hafa ekkert breyst.“

Tafirnar hafa þær afleiðingar að samningar aðildarfélaganna munu væntanlega standa eitthvað fram á haustið.

Aðildarfélögin 17 sem eru að hefja kjaraviðræður við ríkið: 

Dýralæknafélag Íslands

Félag geislafræðinga

Félag háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins

Félag íslenskra félagsvísindamanna

Félag íslenskra hljómlistarmanna (Starfsmannafélag Sinfóníuhljómsveitar Íslands)

Leikarafélag Íslands

Félag íslenskra náttúrufræðinga

Félag lífeindafræðinga

Félag sjúkraþjálfara

Félagsráðgjafafélag Íslands

Fræðagarður

Iðjuþjálfafélag Íslands

Ljósmæðrafélag Íslands

Sálfræðingafélag Íslands

Stéttarfélag bókasafns- og upplýsingafræðinga

Stéttarfélag lögfræðinga

Þroskaþjálfafélag Íslands

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert