Nálgunarbann eftir að hafa veist að 13 ára dreng

Frá Breiðdalsvík.
Frá Breiðdalsvík. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Héraðsdómur Austurlands úrskurðaði í dag karlmann á fimmtugsaldri í fjögurra mánaða nálgunarbann gagnvart 13 ára dreng á Breiðdalsvík og staðfesti þar með ákvörðun lögreglustjórans á Austurlandi. Má maðurinn ekki koma á eða í námunda við heimili drengsins á svæði sem afmarkast á 10 metrum frá lóðarmörkum heimils hans. Þá má hann heldur ekki nálgast drenginn, veita honum eftirför eða setja sig í samband við hann með öðrum hætti.

Í röksemdum lögreglustjórans fyrir nálgunarbanninu kemur fram að maðurinn hafi ítrekað veist að drengnum undanfarin tvö ár. Hafi hann meðal annars ýtt við honum, varnað honum vegar og ógnað honum. Hefur í fjölmörgum tilvikum verið tilkynnt um hegðun mannsins til lögreglu, en síðasta tilvikið átti sér stað 12. ágúst. Hafði lögreglan þó rætt við manninn deginum áður og farið fram á að hann léti drenginn í friði.

Segir jafnframt að drengurinn treysti sér ekki til að mæta í skóla þar sem maðurinn eigi þar oft leið fram hjá.

Samkvæmt lýsingum vitnis á síðasta atvikinu sem kom upp hafði maðurinn hjólað á eftir drengnum. Reyndi drengurinn að hlaupa undan manninum en hann hjólaði fyrir hann og neyddi hann í tvígang til að stöðva. Segir að það hafi greinilega verið gert til að hræða drenginn.

Telur lögreglan að rökstuddur grunur sé að maðurinn hafi framið refsiverð brot eða raskað friði drengsins í skilningi laga og að ekki sé talið sennilegt að friðhelgi drengsins verði vernduð með öðrum og vægari hætti en nálgunarbanni.

Samkvæmt úrskurði dómsins var fyrsta tilvikið sem varð á milli drengsins og mannsins vegna þess að maðurinn sakaði drenginn um eignarspjöll og síðar lygar en drengurinn viðurkenndi ekki verknaðinn. Sló maðurinn þá drenginn með flötum lófa.

Síðar varnaði maðurinn drengnum för, ógnað drengnum þegar hann var á hjóli og hrinti honum í sundlaug. Þá er hann sagður hafa fellt drenginn, veitt drengnum eftirför og hreytt í hann ónotum.

Maðurinn hefur viðurkennt nokkur atvikanna en kannast ekki við önnur. Vitni eru að einhverjum tilvikanna. Segir maðurinn að hann eigi við verulegan hegðunarvanda að stríða, en hann eigi ekki annars úrkosta en að verja fjölskyldu sína fyrir drengnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert