Vill kveða niður klórdrauginn

Krossneslaug.
Krossneslaug. mbl.is/Birkir Fanndal Haraldsson

„Það er í sjálfu sér ekkert hægt að gera annað en að fræða fólk um skaðsemi þess að fara í náttúrulaugar sem eru fullar af gerlum,“ segir Anton Helgason, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða. Í sýnatöku Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða á gerlum- og bakt­eríum í nátt­úru­laug­um á Vestfjörðum kemur fram að magn þeirra er langt umfram viðmiðunarmörk. 

„Það þarf að kveða niður þennan klórdraug. Klór er allra meina bót. Hann er sóttvörn sem drepur gerla baðgesta,“ segir Anton og bætir við að það sé ekkert heilnæmt við að fara í svokallaða náttúrulaug sem er full af gerlum og bakteríum. Hann bendir á að bað í slíkum laugum gæti reynst ungum börnum sérstaklega slæmt. „Við erum með skjalfest dæmi um bæði húðsýkingar og eyrnabólgur sem rekja má til náttúrulauga,“ segir Anton. 

Hann segir ástandið slæmt sérstaklega eftir að gefin var út bók með náttúrulaugum og náttúrpottum landsins sem margar hverjar eru í einkaeigu. „Menn fara ofan í allar laugar og potta alveg sama hversu mikill drullupyttur þetta er,“ segir Anton. 

Hann segir heilbrigðiseftirlitið hvorki með tæki né tól til að sinna eftirlitinu því  ekki er alltaf vitað hverjir eru eigendur lauganna. Öðru máli gegnir um sundlaugar eru reknar af sveitarfélögum og yfir þær gilda ákveðnar reglur en ekki hinar. 

Krossneslaug í Árneshreppi, sundlaug í Reykjarfirði og fleiri laugar á landinu eru dæmi um sundlaugar þar sem gerla- og bakteríumengun var mikil. 


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert