Bílskúrshurðin sprakk af

Skúrinn er sótsvartur að innan.
Skúrinn er sótsvartur að innan. mbl.is/Eggert

Þegar slökkvilið höfuðborgarsvæðisins mætti á vettvang í Skipholti í morgun, eftir að fjölmargar tilkynningar bárust um sprengingu í bílskúr, lá bílskúrshurðin úti á hlaði. Mikinn reyk lagði úr skúrnum en greiðlega gekk að slökkva eldinn.

Enginn slys urðu á fólki þegar hurðin fór af skúrnum, að sögn Jóhanns Viggós Jónssonar, varðstjóra hjá slökkviliðinu. Einn maður var fluttur á slysadeild, ekki þrír eins og viðbragðsaðilar greindu frá í morgun.

Um er að ræða bílskúr í sex skúra húsi. Svo virðist sem hann hafi verið útbúinn sem íbúð. Steyptir veggir skilja skúrana að og það lítur út fyrir að önnur rými hafi sloppið óskemmd. Þó hefur eitthvað tjón orðið á hitavatnsleiðslum.

Von er á tæknideild lögreglunnar á svæðið upp úr hádegi en samkvæmt lögreglumanni á svæðinu er ekki hægt að athafna sig í bílskúrnum eins og er vegna gufa. Blaðamaður mbl.is á vettvangi segir allt sótsvart í skúrnum, sem hefur verið girtur af.

Lögregla vaktar svæðið. Samkvæmt upplýsingum mbl.is er orsök sprengingarinnar ókunn. Þá er ekkert sem bendir til þess að eitthvað saknæmt hafi átt sér stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert