Vilja að Símon víki í Stím-máli

Lárus Welding og Óttar Pálsson.
Lárus Welding og Óttar Pálsson. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

„Umbjóðandi minn krefst þess að Símon Sigvaldason dómari víki sæti við endurtekna meðferð málsins,“ sagði Óttar Páls­son hæsta­rétt­ar­lögmaður fyr­ir Héraðsdómi Reykja­vík­ur í dag þar sem munn­leg­ur mál­flutn­ing­ur fer fram í svo­nefndu Stím-máli, en Óttar er verj­andi Lárus­ar Weld­ing, fyrr­ver­andi banka­stjóra Glitn­is banka, sem er einn ákærðra í mál­inu.

Þrír sak­born­ing­ar í mál­inu voru dæmd­ir í fang­elsi í des­em­ber árið 2015, frá 18 mánuðum upp í 5 ár. Málið er eitt af hinum svo­kölluðu hrun­mál­um og teng­ist 20 millj­arða króna láni bank­ans til fé­lags­ins Stím til kaupa hluta­bréfa í Glitni og FL Group, en FL var á þess­um tíma stærsti hlut­hafi Glitn­is.

Hæstiréttur ómerkti dóm héraðsdóms í málinu snemma í sumar en rétturinn vísaði til þess að Sig­ríði Hjaltested, dóm­ara í mál­inu, hafi brostið hæfi til að dæma í mál­inu. Sig­ríður sagði sig frá öðru hrun­máli sem Hæstirétt­ur seg­ir hliðstætt þessu máli. Það gerði hún vegna tengsla þess við fyrr­ver­andi eig­in­mann sinn og barns­föður.

Í dómi Hæsta­rétt­ar kom fram að Sig­ríður hafi á þeim tíma sem hún dæmdi í Stím-mál­inu vitað um stöðu fyrr­ver­andi eig­in­manns síns. Stuttu áður en dóm­ur féll í Stím-mál­inu var önn­ur ákæra gef­in út gegn stjórn­end­um Glitn­is í svo­kölluðu markaðsmis­notk­un­ar­máli bank­ans. Sagði Sig­ríður sig frá því þar sem hana skorti hæfi til að dæma í mál­inu og vísaði hún til þess að eig­inmaður sinn hafi verið starfsmaður bank­ans og með stöðu sak­born­ings í öðrum mál­um. 

Vakti þetta at­hygli verj­anda í Stím-mál­inu sem komu tengsl­un­um á fram­færi við rík­is­sak­sókn­ara sem sagðist ekki telja þetta ástæðu til að fara fram á ógild­ingu. Gerðu verj­end­ur það því fyr­ir Hæsta­rétti þegar málið var tekið þar fyr­ir.

Á litla möguleika ef sömu dómarar dæma aftur

Óttar Pálsson, verjandi Lárusar, sagði það eina af kröfum umbjóðenda síns sem sneri að því að Símon skyldi víkja sæti í málinu. Hann hafi ekki upplýst verjanda um stöðu Sigríðar en hún hafi sérstaklega upplýst hann um stöðu mála.

„Með þessu stuðlaði dómsformaður að því að vanhæfur dómari tók þátt í máli gegn umbjóðenda mínum og kvað upp áfellisdóm yfir honum,“ sagði Óttar og bætti við að málsmeðferðin hefði verði haldin svo miklum annmörkum í fyrra skiptið að ómögulegt væri að sömu dómarar myndu dæma aftur.

„Umbjóðandi minn á erfitt með að sjá að hann eigi nokkurn möguleika við endurtekið mál ef tveir af þremur dómurum sem dæmdu í héraði sitja þar aftur,“ sagði Óttar. 

Enn fremur bætti hann því við að dómarinn hefði þrívegis áður dæmt Lárus sekan í öðrum málum. Í einu þeirra hefði hann verið sýknaður í Hæstarétti, annað málið hefði verið ómerkt og þriðja bíði þess að verða tekið fyrir í Hæstarétti.

„Erfitt er að útiloka að þessi fjöldi mála torveldi dómara að líta hlutlaust á málin. Enginn á að sætta sig við að niðurstaða í máli hans sé fyrirfram ráðin.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert