„Ætlum að sækja fram og um leið búa í haginn“

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra flytur stefnuræðu sína í kvöld.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra flytur stefnuræðu sína í kvöld. mbl.is/Eggert

„Í augum umheimsins er Ísland fyrirmyndarsamfélag þar sem efnahagsleg velferð er mikil, gæðunum jafnar skipt en annars staðar og jafnrétti og umbyrðarlyndi ríkir,“ sagði Bjarni Benediktsson forsætisráðherra undir lok stefnuræðu sinnar sem hann flutti á alþingi nú í kvöld.

Bjarni fór víða í ræðu sinni og vék máli sínu meðal annars að heilbrigðismálum, kjaramálum og málefnum aldraðra. Þá boðið Bjarni breytingar á menntakerfinu á komandi árum auk þess sem hann vakti máls á veikleikum á vinnumarkaði, efnahagsmálum og hugsanlegum sóknarfærum til framtíðar.

Flestir þættir leggist með Íslandi

„Engin leið er að koma í veg fyrir sveiflur í náttúrunni, óstöðugleika í alþjóðamálum, versnandi viðskiptakjör eða aðrar utanaðkomandi aðstæður.  Við getum einungis þakkað fyrir að eins og sakir standa leggjast flestir þættir með okkur,“ sagði Bjarni um leið og hann vakti máls á þeim árangri sem náðst hafi á undanförnum árum að eigin sögn.

Svigrúm í ríkisfjármálum síðustu ár hafa meðal annars verið nýtt til að greiða upp skuldir ríkissjóðs að því er fram kom í máli Bjarna auk þess sem útgjöld til velferðarmála hafi verið aukin.

„Skuldir ríkissjóðs hafa lækkað um 400 milljarða á síðustu þremur árum auk þess sem greitt hefur verið inn á lífeyrisskuldbindingar,“ sagði Bjarni og bætti við að á næstu árum verði útgjöld til verðferðamála aukin enn frekar. „Það verður hins vegar að hafa þolinmæði til að byggja innviðina upp í samræmi við efni og aðstæður hverju sinni,“ sagði Bjarni.

„Ágæt samstaða“ um kjarabaráttu aldraðra

Fagnaði Bjarni því sérstaklega að fyrsta skóflustungan að nýjum meðferðarkjarna nýs Landspítala verði tekin í vor en sagði hann þó ljóst að meira þurfi til. „Góð heilbrigðisþjónusta og jafnt aðgengi allra landsmanna er leiðarljós þessarar ríkisstjórnar,“ sagði Bjarni.

„Við þurfum að huga að uppbyggingu á þjónustu við aldraða sem hafa lagt mikið til þess góða árangurs sem íslenskt samfélag hefur náð á liðnum áratugum,“ sagði Bjarni og nefndi hann einkum uppbyggingu  hjúkrunarheimila í því samhengi.

Þá hafi á síðasta ári náðst „ágæt samstaða“ á þingi um kjarabætur aldraðra og um næstu áramót muni greiðslur ellilífeyrisþega frá Tryggingastofnun nema 300 þúsund krónum á mánuði. „En við vitum þó að enn er þó verk að vinna. Ríkisstjórnin hefur sett í forgang að lyfta skerðingarþakinu vegna atvinnutekna á kjörtímabilinu,“ sagði Bjarni.

Gamalgróið sundurlyndi á vinnumarkaði

„Þótt okkur Íslendingum hafi um margt gengið vel að stjórna málum okkar á undanförnum áratugum og árangur náðst á mikilvægum sviðum, er gamalgróið sundurlyndi á vinnumarkaði okkur fjötur um fót. Við stöndum þar nálægum þjóðum langt að baki,“ sagði Bjarni er hann vék máli sínu að vinnumarkaðsmálum og þeim áskorunum sem framundan eru í kjaraviðræðum.

„Á síðustu árum hafa launahækkanir náð nýjum hæðum en samspil ýmissa þátta hefur enn sem komið er komið í veg fyrir að sá árangur tapaðist á verðbólgubáli,“ sagði Bjarni.

„Vinnumarkaðslíkanið er í raun ónýtt“

Í nágrannalöndunum sé það grundvallaratriði í kjaraviðræðum að sammælast um hve mikið laun geti hækkað án þess að ógna efnahagslegum stöðugleika að sögn Bjarna. Önnur sé staðan aftur á móti hér á landi.

„Enginn vísir er að slíku samkomulagi hér á landi eftir að það er orðin sérstök íþrótt að tala niður SALEK samkomulagið og lýsa yfir andláti þess,“ sagði Bjarni.

„Vinnumarkaðslíkanið á Íslandi er í raun ónýtt. Þetta eru stór orð. En hver getur mótmælt þessu þegar hver höndin er uppi á móti annarri, jafnvel í upphafi samningalotu. Það er engin samvinna til staðar og skipulagið tilviljanakennt og breytilegt frá einum kjaraviðræðum til þeirra næstu,“ sagði Bjarni og bætti við að leit að sökudólgum væri ekki vænleg til árangurs.

Nær að líta til kaupmáttar en skattbyrði

Þá vakti Bjarni máls á nýlegri skýrslu um skattbyrði launafólks en niðurstað skýrslunnar var sú að skattbyrði hafi aukist, einkum hjá þeim tekjulægstu. „Þetta kann að vera rétt en breytir ekki því að annað sjónarhorn segir miklu meiri sögu.  Við mælum framfarir og lífskjarasókn mun betur með því að horfa á þróun ráðstöfunartekna en skattbyrði,“ sagði Bjarni.

„Klisjan um vaxandi ójöfnuð lifir góðu lífi í umræðunni. Staðreyndin er þó sú að engin þjóð mælist með meiri launajöfnuð en Ísland samkvæmt árlegri úttekt OECD á jöfnuði meðal þjóða,“ bætti hann við. Sú „klisja“ standist ekki skoðun að sögn Bjarna.

Framþróun og breytingar í menntamálum

„Sökum örrar þróunar á rannsóknum og tækni er nú stundum talað um fjórðu iðnbyltinguna,“ sagði Bjarni. Segir hann mikilvægt að Íslendingar fylgist grannt með þeirri þróun svo samfélagið geti aðlagast fyrirsjáanlegum breytinum, einkum á vinnumarkaði.

„Framþróun og breytingar í menntamálum verða miklar á komandi árum. Hér skiptir öllu að Alþingi og stjórnvöld varði leiðina, sýni raunverulegt þor við að endurskoða menntakerfið og skapa með því nauðsynleg tækifæri fyrir þessar komandi kynslóðir í nýjum veruleika,“ sagði Bjarni.

Þær breytingar sem væntanlegar séu muni ekki síður varða starfsfólk á vinnumarkaði en á komandi árum muni  starfsfólk á ýmsum sviðum þurfa að bæta við þekkingu sína í takt við breytta tíma. „Hér reynir mikið á stjórnvöld, á atvinnulífið, verkalýðshreyfinguna og menntakerfið. Þessi þróun er og verður mikil áskorun sem við verðum að rísa undir og leggja til tíma, kraft og fjármuni,“ sagði Bjarni.

Þá sló Bjarni botninn í ræðuna með því að minnast á 100 ára fullveldisafmæli Íslands á næsta ári. „Við ætlum að sækja fram og um leið búa í haginn fyrir framtíðina - grípa tækifærin sem hún ber í skauti sér, með viðlíka hætti og þeir sem í upphafi lögðu grunninn að fullveldi og sjálfstæði þjóðarinnar,“ sagði Bjarni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert