Engin skýr niðurstaða

Unnur Brá Konráðsdóttir, forseti Alþingis.
Unnur Brá Konráðsdóttir, forseti Alþingis. mbl.is/Eggert

Engin skýr niðurstaða var á fundi forseta Alþingis með formönnum þeirra flokka sem sitja á Alþingi sem fram fór fyrr í dag. Unnur Brá Konráðsdóttir, forseti Alþingis, segir fundinn hins vegar hafa verið góðan.

„Ég boðaði til mín formenn flokkanna til að ræða það með hvaða hætti við gætum lokið þingstörfum fyrir kosningar. Það eru nokkur mál sem menn hafa áhuga á að skoða og kanna hvort menn geti náð sameiginlegri niðurstöðu eða málamiðlun um,“ segir Unnur Brá í samtali við mbl.is.

Áhersla á breytingar á útlendingalögum og lögfestingu NPA 

Aðspurð hvaða mál formenn flokkanna vilji leggja áherslu á segir Unnur Brá að forseta hafi verið falið að lesa yfir þau frumvörp sem hafa verið í smíðum og nefnir sem dæmi breytingar á útlendingalögum og lögfestingu á notendastýrðri persónuþjónustu, NPA. „Það stóð til að lögfesta á þessu þingi frumvörp sem voru lögð fram síðasta vor varðandi þau málefni, en þau eru ekki komin í þann farveg, enda ekki búið að leggja þau fram. Forseta var falið að kanna hvernig við getum tryggt með sem bestum hætti að nýtt þing geti á sem öruggastan hátt tekið þau mál til umfjöllunar.“

Formenn flokkanna munu funda að nýju með forseta Alþingis á miðvikudag.

„Þau mál sem formenn flokkanna gátu sammælst um að skoða frekar eru komin í ákveðinn farveg og þegar þeirri athugun er lokið hittumst við að nýju á miðvikudaginn og reynum að átta okkur á því hvernig við getum haldið áfram.“  

Unnur Brá segir að enn sé of snemmt að segja til um hvernig þingstörfum verði háttað fram að kosningum 28. október næstkomandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert