Berjast um að heilla bragðlaukana

Undanúrslit í keppninni um kokk ársins 2017, fór fram á Kolabrautinni í Hörpu í gær. Tólf matreiðslumenn höfðu unnið sér inn þátttökurétt í undanúrslitunum eftir nafnlaust val dómnefndar byggt á innsendum uppskriftum.

„Keppendur skila uppskrift fyrir 12 manns ásamt mynd af réttinum. Dómnefnd fór nafnlaust yfir uppskriftirnar og valdi 12 bestu uppskriftirnar,“ segir Hafliði Halldórsson, einn umsjónarmanna keppninnar. Einungis faglærðir matreiðslumenn geta sent umsókn en þeir keppendur sem kepptu í gær fengu verkefni sín send fyrirfram og var þorskur í forgrunni í ár. „Keppnin fer þannig fram að við búum til verkefni fyrir keppendur, sem í ár snerist um að búa til fiskrétt úr þorski, þorskkinnum, íslensku blómkáli og íslenskum kartöflum sem aðalrétt,“ segir Hafliði en úrslitin fara fram með öðru sniði. „Þar er svokölluð leynikarfa en keppendur fá að vita hráefnið sem þeir eiga að vinna úr og verkefnið að morgni laugardags. Þeir þurfa bara að koma með hnífana sína, vel beitta.“

Þorskurinn matreiddur í dauðaþögn

Keppendur elduðu í opnu eldhúsi og gátu gestir fylgst með á meðan matreiðslan fór fram. Einbeiting var mikil og heyrðist ekkert úr eldhúsinu nema steikingarhljóðið úr pönnunum. Undirritaður var það lánsamur að fá að bragða á nokkrum réttum og þrátt fyrir að hafa borðað þónokkuð af þorski um ævina, eins og flestir Íslendingar, voru allir réttirnir einstakir. Réttur Hafsteins Ólafssonar frá Sumac Grill + drinks vakti mikið umtal við borðið og bragðaðist einstaklega vel en Hafsteinn er ungur en reyndur kokkur.

Hafsteinn var meðal þeirra sem komust áfram í úrslitin á laugardaginn, ásamt Bjarna Viðari Þorsteinssyni á Sjávargrillinu, Garðari Kára Garðarssyni frá Deplar Farm, Rúnari Pierre Heriveaux frá Grillinu á Hótel Sögu og Víði Erlingssyni frá Lava Restaurant Blue Lagoon Iceland.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert