Dautt nagdýr reyndist vera í salatinu

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur rannsakaði um helgina aðbúnað á veitingastað eftir að …
Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur rannsakaði um helgina aðbúnað á veitingastað eftir að karlmaður sagðist hafa fundið dautt nagdýr í salati sem keypt var þar. Ekkert þykir þó benda til nagdýravanda á staðnum. Ljósmynd/Aðsend

Karlmaður leitaði sér aðstoðar á Landspítalanum eftir að hann varð var við dautt nagdýr í salati sem hann hafði keypt á veitingastað á höfuðborgarsvæðinu um nýliðna helgi. Í kjölfarið var haft samband við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur sem brást skjótt við og framkvæmdi úttekt á veitingastaðnum og öllum aðbúnaði þar.

„Veitingastaðnum var lokað um stund á meðan rannsókn fór þar fram. Það er hins vegar ekki talin nein þörf á að hafa staðinn lokaðan áfram þar sem ekkert þykir benda til þess að þar sé nagdýravandamál,“ segir Óskar Ísfeld Sigurðsson, deildarstjóri hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, í samtali við Morgunblaðið og bætir við að rannsókn atviksins beinist því meðal annars að hráefninu sjálfu.

 Nagdýrið sent sérfræðingum

Aðspurður segir Óskar nagdýrið hafa verið sent í greiningu. „Þetta er ungi og hann hefur verið sendur sérfræðingum til greiningar,“ segir hann og bendir á að hann viti nokkur dæmi þess að aðskotahlutir, s.s. líkamshlutar dýra, hafi fundist í matvælum sem flutt eru hingað til lands.

„Við vinnum nú að því taka út aðbúnað hjá birginum og kanna hvort umrædd vara sé flutt hingað til lands fullpökkuð. Rannsóknin er því enn í gangi og endanleg viðbrögð okkar munu taka mið af niðurstöðum hennar,“ segir Óskar enn fremur. Morgunblaðið hafði samband við innflutningsaðila salatsins og sagðist sá harma atvikið mjög, en framkvæmdastjóri þar segir þá hafa flutt inn vöruna án nokkurra vandræða árum saman. „Heilbrigðiseftirlitið hefur ekki farið fram á að þetta verði innkallað, það er ekkert í hendi með að þetta komi úr þessu spínati sem um ræðir,“ segir hann og bætir við að salatið sé flutt hingað í lokuðum umbúðum frá útlöndum. „Við tökum svona mjög alvarlega.“

Þá var einnig haft samband við forsvarsmann veitingastaðarins sem segist vera í miklu áfalli yfir atvikinu. „Ég hef aldrei lent í öðru eins. Miðað við kröfur okkar um hreinlæti er þetta ótrúlegt,“ segir hann.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert