Lögregla fékk símagögn áður en Hæstiréttur tók úrskurð fyrir

Kærunni var vísað frá Hæstarétti þar sem lögregla hafði þegar …
Kærunni var vísað frá Hæstarétti þar sem lögregla hafði þegar fengið gögnin afhent. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Á fimmtudaginn féllst Héraðsdómur Norðurlands eystra á kröfu lögreglunnar um að Símanum, Vodafone og Nova yrði gert skylt að ahenda henni upplýsingar um notkun á símanúmeri manns sem grunaður er í frelsissviptingarmáli en maðurinn neitaði sök við yfirheyrslur.  

Alls voru sjö ein­stak­ling­ar hand­tekn­ir í tengsl­um við málið sem átti sér aðfaranótt þriðju­dag á Ak­ur­eyri, en það leiddi til þess að karl­maður á fimm­tugs­aldri var lagður inn á sjúkra­hús. Þremur var síðar sleppt en fjórir voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald.

Í kjölfar úrskurðar héraðsdóms um að fallast á kröfu lögreglunnar um að fjarskiptafyrirtækjunum yrði gert skylt að afhenda upplýsingarnar, lýsti maðurinn því yfir að hann hygðist kæra úrskurðinn til Hæstaréttar en í dag kvað Hæstiréttur upp dóm þar sem fram kemur að Hæstarétti hafi borist bréf frá Lögreglustjóranum á Norðurlandi Eystra þar sem upplýst var að honum hafi verið afhentar upplýsingar um notkun farsímans og var málinu því vísað frá Hæstarétti á þeirri forsendu að lögregla væri þegar komin með gögnin. 

Samkvæmt heimildum mbl.is leið tæpur klukkutími frá því að úrskurður héraðsdóms var kveðinn upp þar til að lögreglan fékk upplýsingarnar afhentar og hafði maðurinn því í raun ekki tækifæri til að kæra úrskurðinn til Hæstaréttar. 

Stefán Karl Kristjánsson er verjandi hins grunaða en í samtali við mbl.is sagði hann að framhaldið verði skoðað því ekki sé hægt að búa við það að þetta teljist eðlileg vinnubrögð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert