Óábyrgt að ákveða lokun flugvallar 2024

Reykjavíkurflugvöllur.
Reykjavíkurflugvöllur. mbl.is/Árni Sæberg

„Athuganir og áætlanir varðandi byggingu flugvallar í Hvassahrauni eru ófullkomnar og byggjast á frumgreiningu á mörgum þáttum.“ Þetta er meðal þess sem kemur fram í bókun sem Framsókn og flugvallarvinir lögðu fram á  fundi borgarstjórnar í dag. Óábyrgt sé að taka ákvörðun um lokun Reykjavíkurflugvallar 2024.

Settu Framsókn og flugvallarvinir á dagskrá umræður um skýrslu Þorgeirs Pálssonar „Hlutverk Reykjavíkurflugvallar í öryggiskerfi landsins“ til samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra frá því ágúst, á dagskrá.

Í bókun Framsóknar og flugvallarvina um málið segir m.a.: „Reykjavíkurflugvöllur gegnir mikilvægu öryggishlutverki og ljóst að þær athuganir og áætlanir varðandi byggingu flugvallar í Hvassahrauni eru ófullkomnar og byggjast á frumgreiningu á mörgum þáttum.“

Gera þurfi ýmsar rannsóknir áður en ákvörðun verði tekin „og ef það yrði niðurstaðan að byggja flugvöll í Hvassahrauni væri ekki hægt að loka Reykjavíkurflugvelli fyrr en búið væri að byggja annan flugvöll. Úttekt þarf að gera á veðurfari bæði á jörðu niðri og í lofti á a.m.k. 5 ára tímabili en samanburður á veðurfari Reykjavíkur- og Keflavíkurflugvallar grundvallaratriði.“

Gera þurfi mælingar í mismunandi flughæðum t.d. varðandi vindafar og ókyrrð og skoða hugsanlegar flugbrautarstefnur með tilliti til langtímaupplýsinga um vindafar. Eins þurfi að gera þarf umfangsmiklar jarðvegsrannsóknir til að kanna undirstöður flugbrauta og annarra mannvirkja til að áætla kostnað við framkvæmdina. 

„Mörg atriði varðandi umhverfisvernd eru óviss og ljóst að umhverfismat gæti orðið flókið og tímafrekt, má þar nefna vatnsverndarmál og náttúruvá, með tilliti til gosvirkni og hættu á sprungumyndun. Þá hljóti viðræður við sveitarfélögin Voga og Hafnarfjörð að vera forsenda þess að hefja umfangsmiklar og kostnaðarsamar undirbúningsrannsóknir og þróunarvinnu. Því er óábyrgt að taka ákvörðun um lokun Reykjavíkurflugvallar 2024.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert