Ritaði Ísland undir mynd af Ríki íslams

Hæstiréttur staðfesti úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur.
Hæstiréttur staðfesti úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur. mbl.is/Þórður

Hæstiréttur Íslands hefur staðfest gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur yfir manni sem sótti um hæli hér á landi árið 2015.

Í úrskurði héraðsdóms frá því á mánudaginn kom fram að maðurinn skuli sitja í gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 2. október.

Í greinargerð lögreglu kom fram samkvæmt úrskurði héraðsdóms að maðurinn sagðist vera frá Marokkó þar sem hann sagðist hafa setið í fangelsi í fimm mánuði vegna þátttöku sinnar í andspyrnuhreyfingu.

Ítrekuð afskipti lögreglu af manninum

Manninum var synjað um hæli hér á landi, síðast með ákvörðun kærunefndar útlendingamála 26. janúar síðastliðinn. Unnið hefur verið að því að vísa honum á brott frá Íslandi og í því skyni hefur embætti ríkislögreglustjóra verið í samskiptum við yfirvöld í móttökulandinu.

Í greinargerðinni segir að lögregla hafi ítrekað haft afskipti af manninum síðustu mánuði, meðal annars vegna hótana og annarlegrar hegðunar, ofbeldis og fíkniefnalagabrota.

mbl.is/Hjörtur

Mynd tengd Ríki íslams á Facebook

Svokallað ógnarmat fór fram hjá embætti Ríkislögreglustjóra vegna hans þar sem óskað var eftir upplýsingum frá erlendum löggæslustofnunum. Við gerð matsins kom í ljós að maðurinn hafði birt mynd á Facebook-síðu sinni 1. ágúst síðastliðinn tengda hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams og ritað Ísland undir myndina.

Hótaði foreldrum sínum

Einnig kom þar fram að maðurinn hafði villt á sér heimildir með því að leyna eftirnafni sínu við íslensk yfirvöld.

Hann hafði gefið upp nokkur mismunandi nöfn og útgáfur af nafni sínu og annað fæðingarár, meðal annars í Noregi, Belgíu, Hollandi og Frakklandi.

Þá fylgdu einnig upplýsingar frá alþjóðlegum löggæslustofnunum um að maðurinn hafi gerst sekur um þjófnaði í Noregi á árinu 2014, notað fölsuð ferðaskilríki í Hollandi, brotið útlendingalög í Frakklandi á árinu 2008, auk þess sem hann er skráður í málaskrá lögreglu í Marokkó fyrir ofbeldi og hótanir í garð foreldra sinna árið 2012.

Niðurstaða ógnarmats embættis Ríkislögreglustjóra var sú að maðurinn sé brotamaður og fullt tilefni er fyrir lögreglu að vinna í hans málum vegna „ógnandi og undarlegs atferlis hans“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert