„Best að horfast í augu við þetta“

Hrefna, sem var fyrirliði KR, tók á móti bikarnum eftir …
Hrefna, sem var fyrirliði KR, tók á móti bikarnum eftir að KR sigraði lið Vals 4-0 í úrslitaleik deildarbikarkeppni KSÍ árið 2008. mbl.is/Árni Sæberg

Hún var afrekskona í knattspyrnu. Markamaskína og óstöðvandi markadrottning, svo notuð séu þau orð sem íþróttafréttamenn lýstu henni með. Hún spilaði með öllum stórliðunum hér heima, var í landsliðinu, fór í atvinnumennsku í Noregi og fékk fótboltastyrk í háskóla í Bandaríkjunum. Var í góðu starfi í banka fyrir hrun og þjálfaði meðfram því ungar og upprennandi knattspyrnustjörnur sem dreymdi um að feta í fótspor þjálfarans síns einn góðan veðurdag.

En svo veiktist hún af geðsjúkdómi og lífið tók óvænta beygju.

„Sumir halda að þetta sé eitthvert ægilegt leyndarmál. En þetta er það ekki,“ segir Hrefna Huld Jóhannesdóttir, fyrrverandi landsliðskona og atvinnumaður í knattspyrnu. „Ég er með sjúkdóm sem heitir geðklofi og ég vona að ég geti hjálpað einhverjum með því að tala opinskátt um það og hvaða áhrif það hefur haft á líf mitt.“

 Veiktist árið 2008

Hrefna varð fyrst vör við sjúkdóminn síðla árs 2008. Hún hafði starfað hjá Landsbankanum og missti starfið í bankahruninu. „Í kjölfarið einangraði ég mig, ég skammaðist mín hálfpartinn fyrir að hafa verið sagt upp. Ég fór ekki út og talaði ekki við neinn. Kannski urðu aðstæðurnar til þess að ýta undir sjúkdóminn, það er ómögulegt að segja til um það.“

Geðklofinn birtist þannig hjá Hrefnu að hún fór að heyra raddir. Stundum töluðu þær neikvætt um hana, stundum töluðu þær neikvætt um annað fólk eða einhverja atburði.

„Þetta var mjög niðurbrjótandi. Fyrst vissi ég ekkert hvað var að gerast, en áttaði mig síðan fljótlega á að það var eitthvað mikið að mér. Bróðir minn og frænka höfðu áhyggjur og fóru með mér á geðdeild. Satt best að segja fannst mér ég alls ekki eiga heima þar í byrjun. Ég held að það eigi við um marga, það eru vissir fordómar gagnvart geðsjúkdómum, líka hjá þeim sem eru með þá.“

 Geðsjúkdómar í fjölskyldunni

Næstu mánuði leitaði Hrefna margoft á geðdeild og var nokkrum sinnum lögð þar inn. Hún var síðan greind með geðklofa árið 2009. „Ég fékk greiningu nokkuð fljótt, það hefur líklega hjálpað til að það eru geðsjúkdómar í fjölskyldunni minni. Amma var með geðklofa og ég vissi af því alla tíð eins og flestir – það var aldrei neitt feimnismál.“
Hrefna Huld Jóhannesdóttir, fyrrverandi landsliðskona og atvinnumaður í knattspyrnu.
Hrefna Huld Jóhannesdóttir, fyrrverandi landsliðskona og atvinnumaður í knattspyrnu.

Hrefna fékk geðlyf, þeim fylgdu ýmsar aukaverkanir og nokkurn tíma tók að finna út hvaða lyfjasamsetning hentaði henni. Hún segir að þegar hún horfi til baka finnist sér hún að öllu jöfnu hafa fengið bestu mögulegu aðstoð. „Ég er ekki sammála þeirri gagnrýni sem geðdeildin fær. Mín upplifun var næstum alltaf sú að allir væru að gera sitt allra besta. Eina skiptið sem mér fannst að heilbrigðisþjónustan við mig hefði mátt vera öðruvísi var þegar ég leitaði á geðdeild eftir að hafa ekki getað sofið í margar nætur. Ég sagðist verða að fá að leggjast inn og fá aðstoð við að sofna. Þá var mér sagt að þetta væri ekki staður til að hvíla sig og var send heim. Ég reyndi að mótmæla, en fólk sem er veikt er oft ekki í aðstöðu til að standa á sínu.“

Þetta var fyrir átta eða níu árum. Frá þeim tíma hefur Hrefna lítið verið á vinnumarkaði, hún er öryrki í dag, en segir að heilsan hafi sjaldan eða aldrei verið betri en undanfarna mánuði, Hún er núna einkennalaus að mestu og þakkar það lyfjagjöf, góðri geðheilbrigðisþjónustu og eftirfylgd. Hún hefur verið búsett í Danmörku undanfarin fjögur ár, en hefur aðgang að fagfólki á geðdeild Landspítalans þegar hún þarf á að halda.

Auk þess nýtur hún góðrar heilbrigðisþjónustu þar sem hún býr og geðhjúkrunarfræðingur kemur reglulega til hennar.

 Stundum skammaðist ég mín

Hrefna var 28 ára þegar hún veiktist. Spurð hvernig hún hafi upplifað að vera greind með geðsjúkdóm segir hún það hafa verið reiðarslag. „Þetta sló mig. Ég vildi ekki viðurkenna þetta til að byrja með. Stundum skammaðist ég mín. Núna er viðhorf mitt annað, ég veit að þetta er eins og hver annar sjúkdómur og ég þarf að finna leiðir til að lifa með því. Mér finnst mér hafa tekist ágætlega til við það.“

Hrefna segist stundum finna fyrir fordómum. „Sumir virðast ekki líta á þetta sem sjúkdóm, heldur eitthvað sem ég geti hrist af mér eða losnað við með því að fara út að ganga. Aðrir halda að ég sé á örorkubótum vegna þess að ég nenni ekki að vinna. Eins og það sé eitthvað sérstaklega eftirsóknarvert að vera ekki á vinnumarkaði. Það geta allir orðið öryrkjar, því miður er það bara þannig. Svo eru margir sem þora ekki að spyrja mig út í sjúkdóminn, vita ekki hvernig þeir eiga að koma orðum að þessu.“

 Þurfti að hætta í boltanum

Eftir greininguna reyndi Hrefna hvað hún gat að halda áfram í fótboltanum, bæði að spila og þjálfa. „En ég varð að hætta 2009, ég var orðin það veik. Síðan reyndi ég af og til og spilaði síðast 2012. Ég datt ekki bara út úr íþróttinni sjálfri, heldur líka út úr félagsskapnum og öllu sem var í kring. Það var erfitt.“

Hrefna á tvær dætur, sú yngri er fimm ára, sú eldri er 11 ára og býr hjá föður sínum. Að auki á hún tvö stjúpbörn og eitt stjúpömmubarn. Þegar Hrefna veiktist fyrst tóku foreldrar hennar eldri dóttur hennar að sér um tíma og þegar Hrefna og núverandi eiginmaður hennar fluttu til Danmerkur varð úr að hún myndi búa hjá föður sínum. Hrefna segir dóttur sína vel meðvitaða um veikindi móður sinnar, en hún hafi ekki rætt sjúkdóminn við hana í smáatriðum. „Ég er ekki viss um að hún myndi átta sig á í hverju þetta felst. En sá tími mun koma að ég ræði þetta við hana.“

 Hefur oft farið í afneitun

Ertu reið eða ósátt? Spyrðu einhvern tímann: Hvers vegna ég? „Ég gerði meira af því áður. En það sem mér finnst mest læknandi og hefur hjálpað mér einna mest er að hlæja. Veistu, það þýðir ekki að taka þetta of alvarlega, ekki frekar en nokkuð annað. Ef ég gerði það, þá liði mér alltaf illa.“

Hefurðu einhvern tímann farið í afneitun? „Já, oft. Oft og mörgum sinnum. En það er best að horfast í augu við þetta. Það sem ég hef alltaf gert, alla tíð frá því ég veiktist, er að ég hef reynt að fá alla þá aðstoð sem er í boði. Ég hef einblínt á að gera allt sem ég get til að fá lækningu og líða betur. Að veikjast hefur haft gríðarlega mikil áhrif á líf mitt. Það sem mig langaði til að gera varð ekki að veruleika. Það er fyrst núna, níu árum eftir að ég veiktist fyrst, sem ég sé fram á að fara að fást við það sem mig langaði til að gera þá. Ég myndi t.d. treysta mér til að fara að þjálfa og ég væri tilbúin að miðla af reynslu minni varðandi það að lifa með geðsjúkdómi. Það þarf að opna umræðuna enn frekar.“

 Vill miðla af reynslu sinni

Geturðu ennþá eitthvað í fótbolta? „Já og nei. Ég spila með liði hér í bænum þar sem ég bý. Þar eru nokkrir ellismellir eins og ég, sumar eru talsvert yngri, en ég kann nú samt hitt og þetta sem þær kunna ekki,“ svarar Hrefna hlæjandi. „En ég bý að allri þessari reynslu og ég er bjartsýn á að ég finni leið til að koma henni á framfæri og hjálpa öðrum. Það er það sem mig dreymir um að geta gert.“
Hrefna Huld Jóhannesdóttir skoraði 21 mark í Landsbankadeild kvenna og …
Hrefna Huld Jóhannesdóttir skoraði 21 mark í Landsbankadeild kvenna og fékk gullskóinn af því tilefni. Frakkinn Michel Platini afhenti Hrefnu viðurkenninguna. mbl.is/Halldór Kolbeins

Farsæll fótboltaferill

Hrefna lék tíu A-landsleiki árin 2000-2005 og skoraði samtals þrjú mörk í þeim. Því til viðbótar spilaði hún sex leiki í EM í knattspyrnu og skoraði þar samtals fimm mörk. Hún spilaði líka fjölda leikja með U-21 árs, U-19 ára og U-17 ára landsliðum.

Lengst af lék Hrefna með KR og lék sinn fyrsta meistaraflokksleik fyrir félagið aðeins 15 ára gömul. Hún spilaði einnig með ÍBV, Breiðabliki, Þrótti Reykjavík og Aftureldingu og skoraði samtals 179 mörk í 220 leikjum. Á farsælum ferli sínum fékk Hrefna ýmsar viðurkenningar. M.a. var hún valin nýliði ársins í bandaríska kvennaháskólafótboltanum þegar hún var við háskólanám í Montgomery í Alabamaríki og var líka valin nýliði ársins hér heima árið 1996. Hún var markahæst á U-21 móti Norðurlandaþjóða eitt árið og fékk gullskóinn árið 2003 fyrir að skora flest mörk og það var ekki ómerkari maður en franska knattspyrnugoðsögnin Michel Platini sem afhenti henni hann.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert