Lægstu launin duga ekki til framfærslu

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.

„Lægstu laun á Íslandi eru skammarlega lág og duga ekki til framfærslu hjá fjölda fólks. Þetta er eitt stærsta vandamálið í íslensku samfélagi í dag.“ Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá VR.

„Og þetta er ástæða þess að stjórn VR krefst þess í komandi kjaraviðræðum að persónuafsláttur verði hækkaður í takt við launaþróun frá árinu 1990.

Skattbyrði lægstu launa hefur hækkað meira en annarra tekjuhópa á undanförnum árum. Það má að stærstum hluta skýra með því að persónuafsláttur hefur ekki haldið í við þróun launa. Félagsmenn VR á lægstu laununum greiddu ekki skatt af launum sínum fyrir árið 1998 en frá þeim tíma hefur skattbyrði alls launafólks aukist - þeirra lægstlaunuðu þó mest.

Skattbyrði lágmarkslauna hjá VR er nú um 16% sem er svipað og skattbyrði meðallauna VR félaga var árið 1990. Á myndinni má sjá þróun lágmarkslauna í samanburði við skattleysismörk, en dregið hefur sundur með þeim nánast ár frá ári frá aldamótum,“ segir í grein formanns VR, Ragnars Þórs Ingólfssonar.

Laun verða að duga til framfærslu

„Hagvöxtur á Íslandi hefur verið mikill undanfarin ár og þó margir launamenn hafi notið góðs af því eru alltof margir sem ekki ná endum saman. Laun verða að duga okkur til framfærslu. Hluti af lausninni liggur hjá atvinnurekendum, það hefur árað vel hjá velflestum greinum atvinnulífsins undanfarið. Hluti af lausninni kann að liggja í breytingum á skattkerfinu sem ekki er að skila hlutverki sínu nægjanlega vel. En hvar sem lausnin liggur verðum við að skoða alla möguleika í stöðunni, þar með talið að hækka persónuafsláttinn,“ segir enn fremur í greininni sem hægt er að lesa í heild hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert