Teikaði vespu á hjólabretti og fékk bætur

Héraðsdómur Reykjavíkur taldi tryggingafélagið bera ábyrgð til hálfs við manninn.
Héraðsdómur Reykjavíkur taldi tryggingafélagið bera ábyrgð til hálfs við manninn. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði í dag að Vátryggingafélags Íslands (VÍS) skyldi greiða helming þess tjóns sem ungur maður varð fyrir þegar hann datt á hjólabretti, sem dregið var áfram af vespu sem var á töluverðri ferð.

Atburðurinn átti sér stað bílaplani á Akureyri í maí 2014. Þar segist maðurinn hafa verið að leika sér á hjólabrettinu, sem hann hafi gert frá því í æsku. Hann hitti þar félaga sinn sem var að gera við vespu sem hann átti. Hann hafi gripið aftan í hjólið þegar félagi hans fór rólegan reynsluhring um planið. Síðan hafi ökumaður vespunnar ekið út á götu og aukið ferðina, en við það hafi hann misst takið og dottið af brettinu. Í fallinu steig hann í hægri fótlegg sem bognaði í öfuga átt með þeim afleiðingum að hann hlaut rof á fremra krossbandi og einnig skemmdir í afturhluta innri liðþófa. 

Maðurinn sóttist strax eftir bótum frá tryggingafélagi ökumannsins, en VÍS hafnaði kröfunni á þeim grundvelli að maðurinn hefði sýnt af sér stórkostlegt gáleysi. Af þeim sökum væri ekki til staðar bótaskylda úr ábyrgðartrygging ökutækisins. 

Tæpu ári síðar lenti maðurinn í öðru slysi, er hann ók snjósleða fram af hengju og fékk við það snúningsáverka á hægra hnéð með þeim afleiðingum að hnéð yfirréttist. Fann hann fyrir verkjum og bólgu í hné eftir það slys og gekkst VÍS við bótaskyldu vegna þess atviks. 

Fyrr á þessu ári fór maðurinn svo fram á að VÍS endurskoðaði afstöðu sína vegna fyrra slyssins, en tryggingafélagið hafnaði því. Í kjölfarið fór maðurinn með málið fyrir dómstóla.

Héraðsdómur mat málið sem svo að VÍS bæri ábyrgð á helmingi þess tjóns sem maðurinn varð fyrir í fyrra slysinu. Maðurinn og ökumaður vespunnar voru engu að síður taldir líka hafa sýnt af sér mikið gáleysi.

Var málskostnaður látinn falla niður og verður gjafakostnaður mannsins, 800 þúsund kr., greiddar úr ríkissjóði. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert