Fólk úr öðrum flokkum meðal frambjóðenda

Björn Ingi Hrafnsson.
Björn Ingi Hrafnsson. mbl.is/Árni Sæberg

Samvinnuflokkurinn, ný stjórnmálahreyfing sem skilgreinir sig frá miðju til hægri á hinum pólitíska skala, stefnir á að bjóða fram í öllum kjördæmum í komandi alþingiskosningum. Meðal frambjóðenda flokksins verða fyrrverandi, og hugsanlega núverandi þingmenn annarra stjórnmálaflokka.

Þetta segir Björn Ingi Hrafnsson, fyrrverandi stjórnarformaður og útgefandi Pressunnar í samtali við mbl.is. Greint hefur verið frá því í dag að Björn Ingi hafi stofnað lénið sam­vinnu­flokk­ur­inn.is. Sjálfur kveðst hann þó ekki vera á leið í framboð heldur sé hann innan handar við að koma hreyfingunni á laggirnar.

„Þetta er á fyrstu metrunum. Það er bara verið að búa til vettvang fyrir fólk úr ýmsum áttum úr ýmsum stjórnmálaflokkum og fólk sem hefur ekki tekið þátt í stjórnmálastarfi sem að vill láta að sér kveða,“ segir Björn Ingi.

Einhver nöfn munu koma á óvart

Hugmyndin með stofnun flokksins er að reyna að „rjúfa kyrrstöðu og óáran sem hefur verið uppi í íslenskum stjórnmálum um nokkurt skeið“ að sögn Björns Inga. Hann segir það koma í ljós á næstu dögum hvaða fólk kemur að framboðinu en hann segir ljóst að einhver nöfn muni vekja athygli.

Þar á meðal kunni að vera fyrrverandi þingmenn annarra flokka en aðspurður útilokar hann ekki heldur að einhverjir sitjandi þingmenn gefi kost á sér fyrir Samvinnuflokkinn í komandi alþingiskosningum. „Það verður bara að koma í ljós. Hver og einn verður auðvitað að gera grein fyrir sinni ákvörðun, það er ekki mitt að gera það,“ segir Björn Ingi.

Líkt og nafn flokksins gefur til kynna er hið nýja stjórnmálaafl reiðubúið til samvinnu við aðra flokka og útilokar engan fyrir fram að sögn Björns Inga.

Óvenjulegar aðstæður kalli á óvenjulega hluti

„Þetta er bara hreyfing sem ætlar sér stóra hluti í þessum komandi kosningum og er þess albúið að taka sæti í ríkisstjórn og vinna með öðrum stjórnmálahreyfingum að því að gera gott fyrir land og þjóð, það veitir ekki af,“ segir Björn Ingi.

„Þetta er kannski framboð sem að leggur áherslu á að geta unnið með öðrum. Mér hefur nú sýnst að sumir séu beinlínis strax búnir að segja að þeir útiloki samstarf við þennan og hinn en að þessu kemur fólk úr ýmsum áttum, fólk sem að hefur verið áberandi í stjórnmálum og svo þeir sem að hafa ekki tekið þátt hingað til og við slíkar aðstæður er oft skynsamlegt að reyna að búa til einhvern sameiginlegan nýjan grundvöll.“

Hann segir það gefa augaleið að aðdragandinn hafi verið stuttur enda hafi stjórnarslitin og boðun nýrra kosninga komið öllum á óvart. „Það eru bara ótrúlega óvenjulegar aðstæður í íslenskum stjórnmálum og slíkar aðstæður kalla á ýmsa óvenjulega hluti,“ segir Björn Ingi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert