Haustið gengið í garð með öllum sínum lægðum

Vindaspáin þennan morguninn.
Vindaspáin þennan morguninn. Veðurstofa Íslands

Haustið er gengið í garð með öllum sínum haustlægðum og í dag kemur ein slík í heimsókn. Hlýskil hennar ganga norður yfir landið og fylgir þeim talsverð eða mikil rigning, mest á Suðausturlandi og Austfjörðum, þó í mun minni mæli fyrir norðan, segir í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands. 

„Ekki er þó öll sagan sögð, því útlit er fyrir áframhaldandi vinda- og vætutíð næstu viku, jafnvel úrhelli suðaustanlands. En til huggunar má nefna að votviðrinu fylgja ágætishlýindi miðað við árstíma,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Athugasemd veðurfræðings:

Kröpp lægð kemur upp að landinu með morgninum með mjög hlýju og röku lofti. Á Suðausturlandi og Austfjörðum mun rigna mikið, en í öðrum landshlutum getur rignt talsvert þegar hitaskilin ganga norðvestur yfir landið.

Hvassviðri mun fylgja þessu veðri og er búist við stormi staðbundið á Suður- og Suðausturlandi, þá nærri Eyjafjöllum og austan Öræfa. Taka ætti tillit til þess varðandi ferðalög á þeim slóðum.

Veðurspáin fyrir næstu daga

Gengur í austan og norðaustan 10-18 m/s, en allt að 25 m/s syðst á landinu. Víða talsverð rigning í dag, en mikil úrkoma á SA-landi og Austfjörðum. Suðaustan 10-18 síðdegis, dregur víða úr vætu og léttir til norðanlands, en áfram úrhelli á SA-landi. Suðaustan 18-23 A-lands á morgun, en annars sunnan og suðvestan 10-18 og víða rigning, talsverð SA-lands, en úrkomulítið fyrir norðan. Hiti 7 til 14 stig í dag, en hlýrra á morgun.

Á sunnudag:
Suðaustan 15-23 m/s, en suðlægari síðdegis, hvassast með A-ströndinni. Rigning víða um land, en þurrt að mestu N-lands. Hægari og skúrir um kvöldið. Hiti 8 til 17 stig, hlýjast NA-til. 

Á mánudag:
Vaxandi suðaustanátt, 13-20 m/s undir kvöld, hvassast syðst. Fer aftur að rigna á S-verðu landinu, en þurrt norðan heiða. Hiti 8 til 13 stig. 

Á þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag:
Ákveðnar, en mildar suðaustanáttir, með talsverðri eða mikilli rigningu á S-verðu landinu, en úrkomulítið fyrir norðan. 

Á föstudag:
Dregur líklega talsvert úr vindi og úrkomu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert