Ætlar ekki að ganga í annan flokk

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins og forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins og forsætisráðherra. mbl.is/Ófeigur

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins og forsætisráðherra, segist ekki ætla að ganga í annan flokk, heldur mynda breiðan hóp um að stofna nýja hreyfingu. Þetta sagði hann í sexfréttum RÚV þar sem hann var spurður hvort hann yrði með í Samvinnuflokknum, sem Björn Ingi Hrafnsson, fyrrverandi borgarfulltrúi Framsóknarflokksins í Reykjavík, hefur boðað stofnun á.

„Ég tók eftir þessum fréttum í gær og margt af því sem Björn Ingi bendir á er auðvitað alveg rétt og eflaust er hann með gott fólk með sér en ég er að taka þessa ákvörðun á mínum forsendum og félaga minna og stuðningsmanna í Framsóknarflokknum og byggi á þeim grunni,“ sagði Sigmundur.

Ástandinu innan Framsóknarflokksins ekki viðbjargandi

Greint var frá því í gær að Björn Ingi hefði stofnað lénið samvinnuflokkurinn.is, en hann sagðist ekki sjálfur vera á leið í framboð heldur sé hann innan handar við að koma hreyfingunni á laggirnar. Þá sagði hann að meðal frambjóðenda flokksins yrðu fyrrverandi, og hugsanlega núverandi þingmenn annarra stjórnmálaflokka.

Þegar Sigmundur var spurður hvort hann yrði með í Samvinnuflokknum svaraði hann: „Ég er ekki að fara að ganga í annan flokk. Ég ætla að reyna að mynda breiðan hóp um að stofna nýja hreyfingu, nýjan flokk, fólk sem hefur svipaða sýn og ég og stuðningsmenn mínir á það hvernig hægt er að nýta tækifæri landsins. Vonandi fást sem flestir til að taka þátt í því.“

Þá sagði hann í samtali við RÚV að ástandinu innan flokksins væri ekki viðbjargandi og þess vegna hafi hann sagt skilið við flokkinn. Hann sagði að sumum í flokknum hafi þótt öllu til fórnandi til að losna við sig, þar á meðal að fórna fylgi Framsóknarflokksins í öðrum kosningunum í röð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert