Allt annað áhættumat í kvöld

Lögreglumenn á leik Íslands og Króatíu.
Lögreglumenn á leik Íslands og Króatíu. mbl.is/Hanna

Allt annað áhættumat er hjá lögreglunni fyrir leik Íslands og Kósóvó í undankeppni HM í knattspyrnu í kvöld heldur en fyrir síðustu heimaleiki karlalandsliðsins gegn Úkraínu og Króatíu.   

Einungis um 150 stuðningsmenn koma hingað til lands frá Kósóvó og eru þeir allir boðsgestir knattspyrnusambandsins í Kósóvó.

„Þetta er allt annar veruleiki en við vorum að eiga við síðast,“ segir Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn. Fyrir síðustu leiki hafa um 120 lögreglumenn verið á vakt en þeir verða töluvert færri í kvöld.

Stuðningsmönnum Kósóvó stóð til boða að kaupa 1.000 miða á leikinn en þeir fóru allir til Íslendinga. „Hólfið þar sem Úkraínumennirnir og Króatarnir voru verður líklega fullt af íslensku fjölskyldufólki, sem auðveldar leikinn talsvert fyrir okkur,“ segir hann.

Íslenskir stuðningsmenn í stúkunni á Laugardalsvelli.
Íslenskir stuðningsmenn í stúkunni á Laugardalsvelli. mbl.is/Golli

Skemmtistaðir ekki opnir lengur

Ásgeir Þór tekur fram að lögreglan verði vel mönnuð fyrir leikinn. „Þarna koma tíu þúsund manns saman og svo er óráðið hvað verða margir á „Fan Zone“. Okkar löggæsla miðar að öllu þessu svæði. Svo veit maður ekkert hvaða stefnu þetta tekur ef leikurinn fer vel. Við þurfum að bregðast vel við því en lögreglan er bjartsýn á þennan leik eins og allir aðrir.“

Spurður hvort skemmtistaðir verði opnaðir lengur í kvöld ef landsliðið kemst á HM í fyrsta sinn í sögunni segir Ásgeir Þór að engin þörf sé á því. Leikurinn sé búinn klukkan 21 og nægur tími sé til að fagna um kvöldið. „Skemmtistaðir verða ekki opnir lengur. Við munum ekki fá neina heimild til þess.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert