Kynlaus klósett á Jafnréttisdögum

Jón Atli Benediktsson setti Jafnréttisdaga í Háskóla Íslands í dag.
Jón Atli Benediktsson setti Jafnréttisdaga í Háskóla Íslands í dag. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Kynseginfræðsla, vinnustofa um líkamsvirðingu og fitufordóma, kvöldstund með feðraveldinu, fræðsla um aðgengiskvíða, tónlist í karllægum heimi og kynjajafnrétti í framhaldsskólum. Þetta er aðeins brot af þeim fjölda viðburða sem eru á dagskrá Jafnréttisdaga sem settir voru í níunda sinn í Háskóla Íslands í dag.

Markmið þeirra er að tvinna saman hinar ýmsu víddir jafnréttis og femínisma og skoða fjölbreytileika, forréttindi, þöggun, jafnréttisbaráttu, vald og mismunun. Arnar Gíslason er jafnréttisfulltrúi Háskóla Íslands og skipuleggjandi Jafnréttisdaga. Hann hefur tekið þátt í Jafnréttisdögum frá upphafi og segist finna fyrir miklum breytinum á þessum tæpa áratug.   

„Það hafa orðið miklar breytingar í landslagi jafnréttismála, þetta er orðið meira eins og hver annar málaflokkur. Fólk er minna feimið, það er áhugasamara um að taka þátt og nota þessi verkfæri. Ef maður horfir yfir nemendahópinn er miklu stærri hópur sem hefur mjög mikinn áhuga á feminsma, aðgengismálum, málefnum hinsegin fólks og svo framvegis,“ segir Arnar í samtali við mbl.is. 

Af hverju kynlaus klósett?

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, setti Jafnréttisdaga í hádeginu í dag og í kjölfarið var sýningin „Af hverju kynlaus klósett?“ opnuð. Valgerður Hirst Baldurs, formaður jafnréttisnefndar Stúdentaráðs Háskóla Íslands, fjallaði um sýninguna, þar sem teknar eru saman reynslusögur kynsegin, trans og intersex fólks af almenningssalernum. Sýningin fer fram á salernum á öllum hæðum Háskólatorgs.

Frá setningu Jafnréttisdaga í dag.
Frá setningu Jafnréttisdaga í dag. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Frá deginum í dag til 20. október verður svo boðið upp á fjölbreytta viðburði sem snerta jafnrétti í afar víðum skilningi, en alls verða þeir hátt í 20 talsins. Jafnréttisdagar eru samstarfsverkefni allra háskóla landsins og bjóða flestir þeirra upp á fjölbreytta viðburði á næstu dögum og vikum.

Meðal þess sem fjallað verður um er kynbundið ofbeldi og ábyrgð stofnana, sálrænar afleiðingar af skorti á aðgengi í lífi fatlaðra kvenna, stöðu kynjanna í íslenskum tónlistarheimi, helstu hugtök sem tengjast kynseginleika og kynjajafnrétti í framhaldsskólum landsins.

Líkamsvirðing, partý og pólitík

Einnig verður boðið upp á vinnustofu um líkamsvirðingu og fitufordóma 12. október þar sem nýsjálenski fræðimaðurinn og aktívistinn Cat Pausé flytur erindið „What's size got to do with it? Bodies, Fatness, and Fairness“. Vinnustofan er í samstarfi við Samtök um líkamsvirðingu.

Jafnréttisdögum lýkur svo með veglegu lokapartíi HÍ, HR og LHÍ á Kex Hostel föstudaginn 20. október kl. 20 en þar spila tónlistarmennirnir GKR og ALVIA, auk þess sem fulltrúar flokkanna ræða jafnréttismál í aðdraganda kosninganna.

„Við endum þetta alltaf á partíi en við viljum líka bregðast við því sem er að gerast á hverjum tíma og þar sem það eru kosningar viku síðar finnst okkur mikilvægt að nálgast það viðfangsefni,“ segir Arnar. Fulltrúar stjórnmálaflokka sem bjóða fram í Alþingiskosningunum munu kynna sjónarmið og markmið flokkanna í jafnréttismálum.

Ókeypis er á alla viðburði Jafnréttisdaga og aðgangur öllum heimill. Hér má nálgast nánari upplýsingar um dagskrá Jafnréttisdaga. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert