„Þetta var stjórnsýsla í molum“

Hraunfossar falla undan Hallmundarhrauni og niður í Hvítá en Barnafoss …
Hraunfossar falla undan Hallmundarhrauni og niður í Hvítá en Barnafoss er skammt ofan við fossana. mbl.is/Arnaldur Halldórsson

Umhverfisstofnun hefur sent Evu B. Helgadóttur, lögfræðingi H-foss, leigutaka landsvæðisins við Hraunfossa, tilkynningu um fyrirhugaða áskorun í tengslum við gjaldtöku á bílastæðinu við staðinn en lögreglan stöðvaði hana í gær að beiðni Vegagerðarinnar.

Grípur til andmæla

„Þeir ætla að gera þetta rétt samkvæmt stjórnsýslulögum. Ég fæ daginn í dag til þess að grípa til andmæla,“ segir Eva. Áskorunina þarf í framhaldinu að bera undir kærunefnd umhverfismála og svo dómstóla.

Hún hafði áður talað um að landeigendur og leigutakinn hafi ekki notið andmælaréttar áður en Umhverfisstofnun kynnti þá ákvörðun sína að banna gjaldtökuna. „Það er svo við blasandi að þetta stóðst ekki neitt. Þetta var stjórnsýsla í molum.“

Snýst um yfirráðarétt yfir landi

Eva segir að málið snúist um yfirráðarétt yfir landi og það hvort með friðlýsingu sé Umhverfisstofnun með yfirráðarétt eins og hún eigi land. Hún nefnir Kerið sem dæmi en það er ekki friðlýst. „Þar er landeigandi að byggja upp og selur aðgang að Kerinu en með friðlýsingunni virðist Umhverfisstofnun telja það hlutverk sitt að hafa eftirlit með því að einhver geti notið arðs af landinu sínu og hafi yfirráðarétt yfir því eins og landeigandi. Ef það er þannig þurfa þeir [landeigendur] að skoða hvort þetta sé ekki í gildi eignarnáms,“ greinir hún frá.

Hún segir að landeigendur hafi skoðun á því að þarna sé friðlýst svæði en samt sé þar bílastæði. „Okkur finnst það svolítið sérkennilegt að bílar séu í forgrunni inni á friðlýstri náttúruperlu,“ segir hún og bætir við að landeigendur vilji færa það og byggja upp eitthvað skemmtilegt í takt við umhverfið.

Umferð við Hraunfossa í Borgarfirði hefur aukist verulega með auknum …
Umferð við Hraunfossa í Borgarfirði hefur aukist verulega með auknum ferðamannastraumi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Almenn umferð ekki hindruð

Aðspurð segir hún að ákvörðun lögreglunnar um að stöðva gjaldtökuna hafi komi á óvart. „Það er verið að vísa til þess að þarna sé verið að hindra almenna umferð,“ segir Eva og nefnir ákvæði þess efnis í vegalögum. „Það er ekkert verið að hindra neina umferð þannig að rökstuðningurinn stenst varla, ef nokkuð.“

Eva líkir málinu við Hverfisgötuna. „Þú mátt keyra Hverfisgötuna óáreittur en það þýðir ekki að þú megir leggja hvar sem er og alls ekki ókeypis. Þetta er mjög sérstakt, svo ekki sé meira sagt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert