Skiptar skoðanir á fjölgun innflytjenda

mbl.is/Eggert

Um 60% Íslendinga telja innflytjendur hafa góð áhrif á efnahag landsins en næstum jafnmargir vilja auka fjölda þeirra sem hingað koma og vilja draga úr honum. Þeir sem eiga í persónulegum tengslum við innflytjendur eru jákvæðari en aðrir í þeirra garð.

Þetta eru niðurstöður könnunar sem Félagsvísindastofnun HÍ framkvæmdi 16. mars til 3. maí sl. en þær voru kynntar á samráðsfundi innflytjendaráðs í liðinni viku, þar sem fjallað var um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda.

Meðal þeirra verkefna sem kveðið er á um í framkvæmdaáætluninni eru mælingar á viðhorfum samfélagsins til innflytjenda á gildistíma áætlunarinnar en markmiðið er að öðlast þekkingu sem nýta má til að rýna árángur tiltekinna aðgerða og meta hvort nýrra sé þörf.

„Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar eru landsmenn almennt fremur jákvæðir í garð innflytjenda og fjölmenningarsamfélagsins. Þeir sem eiga í persónulegum tengslum við innflytjendur eru jákvæðari en aðrir og jákvæðastir eru þeir sem tengjast innflytjendum innan fjölskyldu sinnar, t.d. í gegnum hjúskap eða ef þeir eiga innflytjendur að vinum,“ segir í frétt á vef Stjórnarráðsins.

„Spurt var um afstöðu til fjölda innflytjenda, hvort það ætti að auka eða draga úr fjölda þeirra sem koma til landsins eða halda fjöldanum óbreyttum. Um 36% svarenda vildu auka fjöldann nokkuð eða mikið, um 30% halda honum óbreyttum en 34% vildu draga nokkuð eða mikið úr fjöldanum.

Spurt var um áhrif innflytjenda á íslenskan efnahag. Tæp 60% svarenda töldu innflytjendur hafa góð áhrif á efnahaginn, um 22% hvorki né en 18% töldu áhrif innflytjenda neikvæð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert