Dómur ómerktur í auðgunarbrotamáli

Dómurinn var ómerktur og málinu vísað aftur heim í hérað.
Dómurinn var ómerktur og málinu vísað aftur heim í hérað. Ófeigur Lýðsson

Hæstiréttur hefur ómerkt sýknudóm Héraðsdóms Suðurlands frá því í júlí síðastliðnum í auðgunarbrotamáli, þar sem ákærðu var gefið að sök að hafa undirritað tilkynningar um eigendaskipti á samtals 20 vinnuvélum og ökutækjum, án þess að nokkurt endurgjald kæmi fyrir. Um er að ræða fjóra einstaklinga, en ákært var fyrir fjárdrátt í málinu og til vara skila- eða umboðssvik.

Voru vinnuvélarnar fluttar á milli félaga í eigu ákærðu, en í samningi sem gerður var á milli félaganna kom fram að það félag sem vélarnar voru færðar inn í hefði tekið að sér að ljúka ákveðnum verkefnum sem hitt félagið hefði tekið að sér vegna þess að það hefði ekki bolmagn til að sinna þeim.

Í samningum kom jafnframt fram að fyrrnefnda félagið hefði samþykkt að taka upp í greiðslur ákveðnar vinnuvélar. Þá var tekið fram að félagið tæki að sér viðhald á tækjum. Beinar greiðslur fyrir unnin verk myndu engu að síður renna til félagsins sem vélarnar voru fluttar úr. Það félag hafði svo heimild til að kaupa vélarnar aftur að undangenginni greiðslu fyrir allt vinnuframlag, vélavinnu, varhluti, viðgerðir og allan útlagðan kostnað.

Þegar félagið sem vélarnar voru fluttar úr var tekið til gjaldþrotaskipta komu í ljós þær ráðstafanir sem málið lýtur að og voru kærðar af hálfu þrotabúsins til embættis sérstaks saksóknara í október 2011.

Þegar hitt félagið sem tók við vélunum var tekið til gjaldþrotaskipta kom í ljós að engin starfsemi hefði verið hjá félaginu. Það hefði til að mynda ekki stofnað bankareikning og engin gögn voru fyrir hendi um bankaviðskipti þess.

Í skýrslutöku hjá lögreglu viðurkenndi einn ákærðu að vélunum hefði verið ráðstafað úr einu félagi í annað til að koma undan verðmætum. Kvaðst ákærði ekki vita til þess að nokkur greiðsla hefði komið fyrir tækin. Ákærða minnti að til hefði staðið að greitt yrði með vinnuframlagi en taldi ólíklegt að það hefði verið gert.

Í dómi Hæstaréttar segir að héraðsdómur hafi ekki vikið að þessu atriði, né nokkrum öðrum, í dómi sínum og hvaða það hefði á mat sönnunar sektar. Sýknuniðurstaða héraðsdóms var reist á því að ekki hefði verið hnekkt þeim framburði að að verk- og kaupsamningur hefði verið gerður á milli félaganna og því ekki hægt að fallast á ekkert endurgjald hefði komið fyrir vélarnar.

Ríkissaksóknari áfrýjaði málinu til Hæstaréttar sem ómerkti dóminn og sendi aftur í heim í hérað til löglegrar meðferðar að nýju.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert