Hæstiréttur ómerkir Chesterfield dóminn

Hörður Felix og Hreiðar Már í réttarsalnum.
Hörður Felix og Hreiðar Már í réttarsalnum. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Sýknudómur héraðsdóms Reykjavíkur í Chesterfield málinu, sem einnig hefur verið nefndur CLN-málið hefur verið ómerktur af Hæstarétti og vísað í hérað. Í málinu voru þeir Hreiðar Már Sigursson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður og Magnús Guðmundsson, fyrrverandi bankastjóri bankans í Lúxemborg, ákærðir fyrir umboðssvik með því að hafa í sameiningu misnotað aðstöðu sína hjá bankanum og stefnt fé hans í verulega hættu þegar þeir fóru út fyrir heimildir til lánveitinga með nánar tilgreindum hætti.

Fjárhæðir lánanna sem um ræðir námu rúmlega 508 milljónum evra og voru veitt á tímabilinu ágúst til október 2008 en lánin voru notuð til að kaupa lánshæfistengd skuldabréf af Deutsche Bank sem tengd voru skuldatrygingaálagi Kaupþings með það að markmiði að lækka skuldatryggingaálagið.

Frétt mbl.is Tvö atriði tek­in fyr­ir í Chesterfield-máli

Eftir að héraðsdómur gekk um málið komu fram upplýsingar um samkomulög sem gefð höfðu verið um greiðslur til Kaupþings annars vegar og eingarhaldsfélaganna Chesterfield United of Partridge Management Group hins vegar en á grundvelli samkomulagsins var hætt við málshöfðun aðilanna gegn Deutsche Bank. Samkomulagið hljóðaði upp á 425 milljónir evra en af þeirri fjárhæð áttu 400 milljónir evra að renna til Kaupþings.

Frétt mbl.is Kaupþing sagt hafa fengið 46 millj­arða

Þremenningarnir kröfðust frávísunar málsins frá héraðsdómi meðal annars á þeim grundvelli að lögregla hefði ekki rannsakað ástæður þess að samkomulagið var gert en Hæstiréttur féllst ekki á þá kröfu með vísan til þess að því yrð ekki slegið föstu að rannsókn málsins hefði verið í ósamræmi við nánar tilgreind lög um meðferð sakamála.

Á hinn bóginn taldi Hæstiréttur að ekki lægi fyrir að hvaða ástæðum fallist hefði verið á að inna greiðslur samkvæmt samkomulaginu af hendi né með hvaða rökum eða á grundvelli hvaða gagna bankinn og eignarhaldsfélögin tvö reistu málsóknir sínar á bendur Deutche Bank um greiðslu á. Þá taldi Hæstiréttur að ekki lægi fyrir hvers eðlis greiðslurnar væru. Þar af leiðandi taldi Hæstiréttur að rannsókn á þessum atriðum gæti haft þýðingu við mat á því hvort skilyrðum umboðssvika hefði verið fullnægt og við ákvörðun um refsihæð ef skilyrði sakfellingar yrðu talin fyrir hendi. Samkvæmt því var sýknudómurinn og meðferð málsins í héraði frá upphafi aðalmeðferðar ómerkt og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert