Skoða ylstrendur við Gufunes og Skarfaklett

Hugmyndir að ylströnd í Gufunesi, þar sem útfallsvatn frá Orkuveitunni …
Hugmyndir að ylströnd í Gufunesi, þar sem útfallsvatn frá Orkuveitunni væri nýtt til að hita upp sjóinn.

Tillaga borgarstjóra um að stofnaður verði starfshópur til að kanna möguleikann á að nýta heitt umframvatn til að búa til ylstrandir við Gufunes og Skarfaklett var samþykkt í borgarráði í morgun.

Í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að lagt hafi verið til að stofnaður verði starfshópur til að fullkanna og útfæra möguleika á að nýta umframvatn frá virkjunum eða borholum Orkuveitu Reykjavíkur til að skapa nýjar ylstrandir annars vegar við Gufunes og hins vegar við Skarfaklett.

Fulltrúar ÍTR, skrifstofu eigna- og atvinnuþróunar, umhverfis- og skipulagssviðs og Orkuveitu Reykjavíkur munu skipa hópinn og lagt er til að fulltrúi ÍTR verði formaður hópsins, en ÍTR rekur ylströndina í Nauthólsvík.

Í tilkynningunni kemur fram að stöðin á Nesjavöllum framleiðir mun meira af heitu vatni á sumrin en þörf er á fyrir og að því umframvatni sé fargað. Er vísað í minnisblað frá Veitum þar sem segir að „það væri Orkuveitunni ánægjuefni ef skemmtileg nýting fyndist fyrir þetta vatn.“

Leiða megi vatnið í Gufunes frá Víkurvegsstöð í Grafarvogi. 

„Þá er starfshópnum einnig falið að kanna hvort hægt sé að nýta umframvatn fyrir ylströnd við Skarfaklett  út af Laugarnesi. Heita vatnið til hennar myndi koma úr svokallaðri Sundlaugastöð," segir í tilkynningunni.

Í framtíðinni er gert ráð fyrir að allt umframvatn frá Grensásstöð og Sundlaugastöð verði losað til sjávar í frárennslispípu úr Sundlaugastöð. Þær framkvæmdir hafa ekki verið tímasettar en lauslegt mat er að þörf myndist á næstu 10 árum. Kanna þarf  hvort tenging í sjó fram gæti legið að Skarfakletti og hvort flýta megi framkvæmdinni.

Eru ylstrandir á þessum nýju stöðum sagðar hafa án efa „jákvæð áhrif á lýðheilsu, mannlíf og ferðamennsku.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert