Segir Þorgerði ekki hafa úr háum söðli að falla

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, kveðst hafa verið undrandi á ummælum Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanns Viðreisnar og sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðarráðherra, á fundi um menntamál sem haldinn var í gærkvöldi.

Þorgerður sagði á fundinum að Katrín hefði verið í ríkisstjórn þegar samþykkt var að fara í stóriðju við Bakka og Vaðlaheiðargöng voru samþykkt. Sagði Þorgerður að í hennar huga væri valið einfalt; hún myndi frekar verja menntakerfið en fara í slíkar framkvæmdir.

„Formaður Viðreisnar virtist ekkert kannast við fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar, sem hún kallaði reyndar fjárlög ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar,“ segir Katrín í samtali við mbl.is.

Katrín segir að fjárlagafrumvarpið séu áherslur flokkanna sem voru í ríkisstjórn þar til því samstarfi var slitið í síðasta mánuði. 

Kúnstugt að hlusta á þessa flokka

„Það ber ekki vott um neinn sóknarhug í menntamálum. Það er því kúnstugt að hlusta á þessa flokka tala um sókn í menntamálum þegar fjárlagafrumvarpið og fjármálaáætlunin bera ekki vott um að þau ætli sér að fara í það verkefni að koma hér háskólum á samkeppnishæfan grundvöll, svo dæmi sé tekið,“ segir Katrín og bætir við að ekki hafi verið staðið við gefin loforð um að framhaldsskólar fái að njóta fjármuna sem sparist við styttingu náms þar.

Katrín bendir á að fulltrúar ríkisstjórnarinnar sem sprakk í september hafi verið harðlega gagnrýndir á fundinum í gær. „Enda voru þau að kvitta upp á þessa fjármálaáætlun í gær. Þorgerði fannst það ástæða til að telja að ég hefði ekki staðið vörð um menntun á tímum kreppunnar, sem er alrangt,“ segir Katrín.

Gat tryggt öllum framhaldsskólavist

„Ég leitaði samstarfs við aðila vinnumarkaðarins á þeim tíma sem gekk ótrúlega vel og gerði það að verkum að við gátum tryggt öllum framhaldsskólavist í miðri kreppu sem er meira en sagt verður um stöðuna núna,“ segir Katrín sem finnst að hálfnafna hennar, Þorgerður Katrín, ætti að líta í eigin barm:

„Ég benti á að mér fyndist hún hafa í raun og veru ekki úr háum söðli að falla, hafandi setið í þeirri ríkisstjórn sem skilaði ríkissjóði með 200 milljarða mínus.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert