„Hátekjuskattur“ á meðaltekjur

Mun hátekjuskattur hækka?
Mun hátekjuskattur hækka? mbl.is/Golli

Samtök skattgreiðenda hafa tekið saman yfirlit um hvað hátekjuskattur þurfi að hækka mikið til að mæta því viðmiði að auka tekjur ríkissjóðs um 15 milljarða. Samtökin benda á að margir flokkar séu búnir að lofa mikilli útgjaldaaukningu, upp á 70 til 110 milljarða.

Bent er á að í samhengi við heildarútgjöld ríkisins, 800 milljarða, sé það gífurlegur vöxtur. 

„Til að auka tekju ríkissjóðs um 15 milljarða þyrfti ný ríkisstjórn að hækka efra tekjuskattsþrepið úr 46,5% í 50% og lækka viðmiðunarmörk hátekna niður í 595.533 krónur. Allar tekjur yfir þeirri fjárhæð myndu þá bera 50% skatt,“ segir í tilkynningu frá samtökunum.

Sé miðað við þetta myndi skattbyrði einstaklings á almennum vinnumarkaði þar sem meðaltekjur eru 697 þúsund þyngjast um 9.571 krónur á mánuði og þar af leiðandi 114.852 krónur á ári.

Að sama skapi myndi skattbyrði einstaklings í vinnu hjá ríkinu þar sem meðaltekjur eru 732 þúsund myndi þyngjast um 13.959 krónur á mánuði og þar af leiðandi 167.508 krónur á ári.

„Ef efra þrepið yrði fært í 60% færu viðmiðunarmörk efra þrepsins niður í 775.500 krónur. Allar tekjur yfir þeirri fjárhæð myndu bera 60% tekjuskatt. Ef gert væri nýtt 70% tekjuskattsþrep og núverandi hátekjuviðmið yrðu áfram 834.707 krónur yrði ofurhátekjuskatturinn að leggjast á allar tekjur yfir 905.833 krónur,“ kemur fram í tilkynningunni.

Auknum útgjöldum fylgir aukin skattheimta

„Útgjaldaloforð stjórnmálaflokkanna verða ekki uppfyllt nema með aukinni skattheimtu. Framan af kosningabaráttunni var því haldið fram að fjármagna ætti þessi loforð með því að skattleggja háar tekjur og miklar eignir en í ítarlegri fréttaskýringu Fréttablaðsins frá því í síðustu viku voru þessar hugmyndir hraktar, þar sem þær gætu aðeins fjármagnað hluta af loforðasúpunni. Það er því dagsljóst að þessum útgjaldavexti verður velt yfir á almenning í landinu með hærri sköttum,“ segir Skafti Harðarson, formaður samtakanna.

Enn fremur segir að ef ríkið ætli að fjármagna 15 milljarða með því að hækka efra skattþrepið upp í 50% þyrfti að lækka viðmiðunarfjárhæðina út 834 þúsund niður í tæpar 596 þúsund krónur eða niður fyrir meðallaun. Þau áhrif sjást þessari töflu:

Ljósmynd/Samtök skattgreiðenda

Kemur fram að það myndi auka skattbyrði viðkomandi um rúmar 9.500 krónar á mánuði eða tæpar 115 þúsund krónur á ári.

Ef tekið væri dæmi um einstakling með meðallaun ríkisstarfsmann myndi það hafa eftirfarandi áhrif:

Ljósmynd/Samtök skattgreiðenda
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert