„Það var dálítill hiti í mönnum“

Matthías Sveinbjörnsson, forseti Flugmálafélags Íslands.
Matthías Sveinbjörnsson, forseti Flugmálafélags Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Talsverður hiti var í fundargestum þegar mál Reykjavíkurflugvallar voru rædd á fundi um flugmál á Hótel Natura í gær. Flugmálafélag Íslands boðaði til fundarins og bauð frambjóðendum sjö stærstu flokka á landsvísu að ræða málin.

Gestir fundarins voru þau Jón Gunnarsson samgönguráðherra (D), Kjartan Þór Ragnarsson (F), Steinunn Þóra (V), Þorsteinn Víglundsson (C), Jón Þór Þorvaldsson (M), Sigurborg Ósk Haraldsdóttir (P) og Eva H. Baldursdóttir (S).

Matthías Sveinbjörnsson, forseti Flugmálafélags Íslands, segir í samtali við mbl.is, að tilgangur fundarins hafi verið að kanna afstöðu flokkanna til flugmála almennt. Rætt hafi verið um stöðu og framtíð Reykjavíkurflugvallar og lokun neyðarbrautar barst í tal.

Frá fundinum í gær.
Frá fundinum í gær. Ljósmynd/Aðsend

„Við gagnrýndum vinnubrögð í tengslum við lokunina. Í gær staðfesti ráðuneytið að þessi gagnrýni á vinnubrögðin var réttmæt,“ sagði Matthías og bætti því við að ráðuneytið hefði komið þeim tilmælum til Isavia að fara yrði yfir vinnubrögðin.

„Það var dálítill hiti í mönnum á fundinum og almennt þótti mönnum stefna Vinstri grænna og Samfylkingar koma skýrt fram; að þeir vildu flugvöllinn burt,“ sagði Matthías. Hann bætti við að fulltrúar þeirra flokka hefðu sagt að finna þyrfti nýjan stað fyrir flugvöllinn áður en hann hyrfi úr Vatnsmýri.

„Flugsamfélagið hefur verið ósátt við að borgin þrengi að vellinum og gangi á það svæði sem gæti nýst í tengslum við þróun flugvallarstæðið á meðan menn eru að skoða aðra kosti. Þetta er ágreiningur við borgina,“ sagði Matthías en upptöku af fundinum má sjá hér.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert