Umsóknum um vernd fækkar enn

Umsóknum um alþjóðlega vernd á Íslandi hefur fækkað mjög undanfarna …
Umsóknum um alþjóðlega vernd á Íslandi hefur fækkað mjög undanfarna tvo mánuði. AFP

Umsóknum um alþjóðlega vernd hefur fækkað að undanförnu og útlit fyrir að þær verði færri í október en í september. Í þeim mánuði voru þær 40% færri en í sama mánuði í fyrra.

Útlendingastofnun ætlar ekki að framlengja samning um leigu á 10-12 herbergjum á hóteli í Hafnarfirði en leiga á herbergjum hefur verið á meðal bráðabirgðaúrræða sem Útlendingastofnun hefur gripið til þegar margar umsóknir um hæli hafa borist. Þórhildur Ósk Hagalín, upplýsingafulltrúi Útlendingastofnunar, staðfestir þetta við mbl.is.

Fyrirspurn mbl.is kom til vegna ábendingar frá lesanda sem taldi að Útlendingastofnun væri að setja milljónir og aftur milljónir í hótelherbergi sem ekki væru nýtt. 

Sigríður Andersen dómsmálaráðherra.
Sigríður Andersen dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í svari dómsmálaráðherra, við fyrirspurn frá þingmanni Pírata varðandi íbúðarhúsnæði fyrir fólk sem hefur komið hingað til lands og sótt um alþjóðlega vernd, kemur fram að frá árinu 2004 hafi sveitarfélög sinnt þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd en fyrir þann tíma var þjónustan á hendi Rauða kross Íslands.

Þrjú sveitarfélög sinna nú þessari þjónustu á grundvelli samnings við Útlendingastofnun. Í september 2014 hóf Útlendingastofnun til bráðabirgða að útvega húsnæði og annast framfærslu þeirra sem sækja um alþjóðlega vernd.

Stofnunin tók það verkefni að sér vegna mikils álags á þau sveitarfélög sem annast höfðu þjónustuna en þá höfðu umsamin rými á vegum sveitarfélaga verið fyllt vegna mikillar fjölgunar umsókna um alþjóðlega vernd. Herbergi á gistiheimilum og hótelum voru keypt eftir þörfum hverju sinni. Frá byrjun árs 2015 hefur verið leitað útboða í húsnæði fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. 

Húsnæði á grundvelli útboða: 

  •  Gistiheimili, Bæjarhrauni, Hafnarfirði (útboð 2015). 
  •  Gistiheimili, Grensási og Skeggjagötu, Reykjavík (útboð 2015). 
  •  Gistiheimili, Arnarholti, Kjalarnesi (útboð 2016). 

Skilmálar í öllum útboðum eru að húsnæðið fullnægi kröfum til íbúðar, gistiheimila eða samsvarandi starfsemi, 7–10 m2 séu á einstakling, leiga sé til 12 mánaða með ákvæði um framlengingu og húsnæðið sé á höfuðborgarsvæðinu eða í nágrannasveitarfélögum. 

Leiga á herbergjum á hótelum og gistiheimilum án útboðs: 

Frá byrjun árs 2017 hefur verið haldin skrá yfir fjölda herbergja sem tekin hafa verið á leigu fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd en ekki er til yfirlit um fjölda herbergja fyrir þann tíma.

Árlegur heildarkostnaður hefur verið 205.590 kr. vegna ársins 2014, 28.090.095 kr. vegna ársins 2015 og 176.098.930 kr. vegna ársins 2016.

Leiga á stöku herbergi er mjög mismunandi eftir stærð, staðsetningu og veittri þjónustu.

Útlendingastofnun annast málefni þeirra sem sækja um alþjóðlega vernd á …
Útlendingastofnun annast málefni þeirra sem sækja um alþjóðlega vernd á Íslandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Hver hefur verið fermetrafjöldi á hvern einstakling, hvert hefur verið leiguverð á fermetra og hvernig er dreifing leiguhúsnæðisins eftir póstnúmerum? 

Samkvæmt kröfum í útboðum vegna húsnæðis fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd er miðað við 7–10 m2 á einstakling. Ef um er að ræða gistiskála eða rými sem fleiri einstaklingar deila er lágmarksviðmið 4 m2 á einstakling. 

Eins og segir hér að framan er leiguverð á fermetra mjög mismunandi og ekki samanburðarhæft milli úrræða þar sem húsnæði er ýmist leigt tómt, með húsgögnum, með húsgögnum að hluta, með eða án nettenginga, þrifa, aksturs o.s.frv.

Húsnæði dreifist um Reykjavík (101–116, 200–203, 220–221), Reykjanes (230–260) og Borgarnes (311). Einstaka hótelherbergi umhverfis landið falla hér utan,“ segir enn fremur í svari ráðherra við fyrirspurn Ástu Guðrúnar Helgadóttur.

Hér er hægt að lesa nánar svar Sigríðar Andersen dómsmálaráðherra frá því í september.

Ekki hefur þurft að láta flóttafólk sofa á beddum sem …
Ekki hefur þurft að láta flóttafólk sofa á beddum sem þessum í talsverðan tíma hér á landi en þess þurfti þegar umsóknum fjölgaði mjög. mbl.is/Árni Sæberg

Umsækjendur um alþjóðlega vernd í september voru 104 og voru flestir þeirra ríkisborgarar Georgíu og Albaníu. Eru þetta þriðjungi færri umsóknir en í ágústmánuði (154) og 40% færri en í septembermánuði á síðasta ári (176). 

Um 580 einstaklingar nutu þjónustu í verndarkerfinu á Íslandi um síðastliðin mánaðamót, þar af voru um 260 manns í þjónustu hjá félagsþjónustu Reykjavíkurborgar, Hafnarfjarðarbæjar og Reykjanesbæjar, á grundvelli þjónustusamninga við Útlendingastofnun.

Móttöku- og þjónustuteymi Útlendingastofnunar veittu um 320 einstaklingum þjónustu í búsetuúrræðum stofnunarinnar.

mbl.is/Kristinn Garðarsson

Flóttamenn og hælisleitendur:

Mismunandi reglur gilda um þjónustu til þeirra sem fengið hafa vernd hér á landi – það er flóttafólk sem kemur til landsins í boði stjórnvalda (kvótafólk) og flóttafólk sem kemur á eigin vegum til landsins (hælisleitendur).

Sjá nánar á vef velferðarráðuneytisins

Samkvæmt því sem kemur fram á vef Útlendingastofnunar og velferðarráðuneytisins eiga þeir, sem sæta ofsóknum í heimalandi sínu eða heyra af öðrum ástæðum undir flóttamannahugtakið samkvæmt íslenskum lögum, rétt á hæli hér á landi. Þegar knýjandi ástæður á borð við alvarlega sjúkdóma eða sérlega erfiðar félagslegar aðstæður í heima landi eru til staðar er heimilt að veita dvalarleyfi af mannúðarástæðum. 

Flóttamaður er sá sem fengið hefur veitt hæli vegna ótta við ofsóknir í heimalandi sínu eða af öðrum grundvelli samkvæmt lögum.

Sjá nánar á vef Útlendingastofnunar

mbl.is/Kristinn Garðarsson


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert