Eiga ekkert og eiga hvergi heima

AFP

Rauði krossinn á Íslandi hefur ákveðið að fara af stað með neyðarsöfnun fyrir rohingja, flóttafólk frá Búrma, sem farið hefur yfir landamærin til Bangladess. Yfir hálf milljón hefur þurft að flýja blóðug átök. Þá gekk fellibylurinn Mora yfir í maí sem olli mestu skriðuföllum í sögu Bangladess og urðu um 160 manns að bana. Aðstæður eru þannig afar erfiðar, en Bangladess er einnig eitt af fátækari ríkjum heims, segir í tilkynningu frá Rauða krossinum.

AFP

Flóttafólkið þarf að ferðast nokkur hundruð kílómetra til þess að komast yfir landamærin, langflestir fótgangandi, oft og tíðum berfætt, með aleiguna og börn meðferðis.

Lilja Óskarsdóttir sendifulltrúi Rauða krossins á Íslandi sem verið hefur á svæðinu sl. mánuð lýsir aðstæðum svo:

„Í dag horfði ég á endalausa röð af uppgefnu fólki sem gekk hægum skrefum framhjá. Það var mikið af börnum, þeir fullorðnu voru með aleiguna á höfðinu eða hangandi á stöng sem lá á öxlunum. Konur báru yngstu börnin. Flestir gengu berfættir. Ég táraðist þegar ég horfði á röðina líða rólega hjá, fólk sem ekkert á og hvergi á heima. Í hvíldarbúðunum var hlúð að fólkinu, sumir voru skinnlausir á fótunum með flakandi sár eftir langa göngu. Allir þjáðir af hungri og vökvaskorti.“

AFP

Alls 8 sendifulltrúar frá Rauða krossinum á Íslandi hafa verið að störfum á vettvangi og útlit er fyrir að fleiri fari út til aðstoðar. Tjaldsjúkrahúsi hefur verið komið upp þar sem heilbrigðisaðstoð til flóttafólks er veitt, auk mataúthlutunar og aðstoðar.

Hægt er að leggja neyðarsöfnun Rauða krossins á Íslandi lið með því að senda sms-ið TAKKí númerið 1900 og styrkja þannig söfnunina um 1900 kr. Þá er einnig hægt að nota Kass appið með því að nota #takk@raudikrossinn eða leggja inn á reikning 0342-26-12, kt. 530269-2649.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert