Píkumyndir upp á punt og pælingar

Linda Jóhannsdóttir segist með sýningunni vilja vinna gegn því tabúi …
Linda Jóhannsdóttir segist með sýningunni vilja vinna gegn því tabúi sem píkan og heiti hennar er ennþá í samfélaginu. mbl.is/Árni Sæberg

Píka í merkingunni stúlka eða vinnustúlka er orð sem oft er notuð í spaugi, samkvæmt Snöru, orðabókinni handhægu á netinu. Þar er orðið einnig sagt notað um sköp konu, oft sem grófyrði og líka sem gróft skammaryrði um konu.

Gagnleg sem Snara óneitanlega er, má kannski segja að skýringar hennar að þessu leytinu séu ekki alveg í takti við tímann. Enda eru æ fleiri sem nota orðið kinnroðalaust um kynfæri kvenna og eru hvorki að spauga né ætla sér að viðhafa dónaskap með orðalaginu eins og Snara ýjar að (í svigunum).

Að sögn Lindu Jóhannsdóttur, hönnuðar, stílista og eiganda hönnunarfyrirtækisins Pastelpaper, eru samt enn margir, sérstaklega konur, sem hreinlega blána í framan þegar þeir heyra orðið. Og þeim storkar hún væntanlega svolítið með list- og sölusýningunni Píka, sem opnuð verður með pompi og prakt kl. 18 í kvöld að Hverfisgötu 16. Fimmtíu verk af jafnmörgum píkum í stærðinni A5, sem hún vann með vatnslitum og blandaðri tækni, prýða þar veggi. Allar eru myndirnar í sérhönnuðum römmum úr plexígleri eftir Lindu.

Engar tvær eins

Linda sýnir fimmtíu teikningar sem hún vann með vatnslitum og …
Linda sýnir fimmtíu teikningar sem hún vann með vatnslitum og blandaðri tækni og sérhannaði síðan ramma utan um allar.



„Verkin eru unnin til að vekja athygli á píkunni og gera hana sýnilegri í samfélaginu. Mig langar að sýna bæði fegurðina, dulúðina og töfrana sem hún býr yfir og um leið að vinna gegn því að bæði hún og heiti hennar séu tabú,“ segir Linda. Hún er á því að slíkt sé síst til að hjálpa stelpum og konum að elska sig sjálfar og segist einfaldlega vilja leggja sitt af mörkum til að breyta því að orðið sé feimnismál hjá báðum kynjum.

„Þótt engar tvær píkur séu eins, eiga þær það allar sameiginlegt að vera fallegar og mér finnst mikilvægt að senda þau skilaboð út í samfélagið. Einkum í ljósi þess hversu margar stelpur fara í fegrunaraðgerðir án þess að nokkuð raunverulegt sé að þeirra píku,“ heldur hún áfram og segist stundum velta því fyrir sér hversu margar píkur stelpur hafi eiginlega séð þegar þær ákveði að fara í slíka aðgerð. „Enda ekki eins og að láta fjarlægja fæðingarbletti,“ bendir hún réttilega á.

Linda gefur ekki upp hvort myndirnar eigi sér raunverulegar fyrirmyndir. „Þetta eru abstrakt verk, ætluð sem veggjaskraut. Hluti ágóðans rennur til UN Women á Íslandi. Ef til vill mála ég nýjar píkur og geri eftirprentanir af þeim, en af myndunum á sýningunni verða ekki gerðar eftirprentanir. Þær eru einstakar og engum líkar.“

Pjölla og pjása penna orðalag?

Linda sýnir fimmtíu teikningar sem hún vann með vatnslitum og …
Linda sýnir fimmtíu teikningar sem hún vann með vatnslitum og blandaðri tækni og sérhannaði síðan ramma utan um allar.




Linda segist hafa gengið með hugmyndina að píkumyndunum í um hálft ár áður en hún hófst handa fyrir nokkrum mánuðum. „Raunar byrjuðu pælingarnar þegar ég var að skrifa ritgerð um klæðaburð kynjanna í fatahönnunarnámi mínu í Listaháskóla Íslands fyrir nokkrum árum. Mér fannst athyglisvert hversu mikil áhersla er alltaf lögð á hversu ólík kynin eru.“

Upp á grínið er Linda spurð hvað amma hennar segi við tiltæki barnabarnsins. „Ég hef ekki sagt henni frá því, en hún býr reyndar erlendis. Mér fannst svolítið fyndið þegar sumir, sem vissu að ég var að undirbúa sýninguna Píka, spurðu hvernig mér gengi með pjölluna eða pjásuna, rétt eins og það væri penna orðalag. Svo var fólk líka að spyrja eldri strákinn minn, níu ára, hvað honum fyndist um að mamma hans væri að teikna píkur. Þegar ég útskýrði fyrir honum hugsunina að baki, fannst honum það bara flott.“

Sjálf kveðst Linda vera alin upp við að tala hispurslaust um píku og sama sé uppi á teningnum þegar synir hennar eiga í hlut. Hún er spennt að vita hverjir mæta á sýninguna í kvöld.

Facebook: Pastelpaper. Sýningin verður opnuð kl. 18 í kvöld, miðvikudag 1. nóvember og opin til kl. 22. Síðan virka daga kl. 13 - 20 og kl. 13 - 18 um helgina.
Linda sýnir fimmtíu teikningar sem hún vann með vatnslitum og …
Linda sýnir fimmtíu teikningar sem hún vann með vatnslitum og blandaðri tækni og sérhannaði síðan ramma utan um allar.


Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert