Fjöldi barnaverndarnefnda skapar vanda

Dæmi eru um nokkra nýlega dóma þar sem einstaklingar hafa …
Dæmi eru um nokkra nýlega dóma þar sem einstaklingar hafa fengið dóm fyrir að brjóta kynferðislega gegn börnum yfir langt tímabil. mbl.is/Eggert

Fjöldi starfandi barnaverndarnefnda getur leitt til þess að mál týnast í kerfinu þegar einstaklingar sem barnaverndarnefnd hefur haft afskipti af flytja milli sveitarfélaga. Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, segir að dómur sem kveðinn var upp á þriðjudag gegn móður sem hafði beitt börn sín ofbeldi í fjögur ár gefi tilefni til að endurskoða samstarf þeirra 27 barnaverndarnefnda sem starfa hér á landi.

Héraðsdóm­ur Reykja­vík­ur dæmdi á þriðjudag konu til tveggja ára fang­elsis­vist­ar fyr­ir hegn­ing­ar­laga­brot og brot á barna­vernd­ar­lög­um með því að hafa á ár­un­um 2012 til 2016 end­ur­tekið beitt börn­in of­beldi, lík­am­leg­um refs­ing­um, ógnað þeim og sýnt þeim van­v­irðandi hátt­semi, yf­ir­gang og rudda­legt at­hæfi. Börnin eru á aldr­in­um 5 til 14 ára.

Frétt mbl.is: Dæmd fyrir ofbeldi gegn börnum sínum

Rétt­ar­gæslumaður barnanna lýsti undr­un sinni á því í kvöldfréttum Stövar 2 í gær á því að kon­an hafi getað flutt á milli þriggja sveit­ar­fé­laga með börn­in og flúið þannig barna­vernd­ar­yf­ir­völd.

Hefði barnaverndarkerfið getað gert betur?

Bragi segir að miðað við hvernig dómurinn er settur fram er ekki annað að sjá en að málið hafi verið flutt á milli umdæma. „En það getur tekið talsvert langan tíma fyrir vandamál að ágerast.“ Engu að síður telur hann að tilefni sé til að skoða þetta tiltekna mál nánar þar sem um alvarleg brot yfir langan tíma sé að ræða. „Þegar við vitum hversu alvarlegt ofbeldi var þarna á ferðinni hljótum við að spyrja okkur hvort við hefðum getað gert betur? Hefði barnaverndarkerfið getað fangað þetta mál fyrr og varnað því að börnin þyrftu að ganga í gegnum þessi áföll?“

Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu.
Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu.

Bragi segir hlutverk Barnaverndarstofu einmitt vera að vera í ákveðinni fjarlægð frá barnaverndarstarfi sveitarfélaganna til að geta skoðað með hlutlausum hætti einstök mál í því skyni hvort að einhverjar misfellur hafi orðið við vinnslu mála. „Til dæmis hvort nefnd hafi látið undir höfuð leggjast að tilkynna annarri nefnd í kjölfar þess að móðir, eins og í þessu tilviki, flytur milli staða. Hvernig var málið tilkynnt? Var það gert strax eða seinna og hvernig var staðið að flutningi málsins? Þetta eru allt atriði sem koma til skoðunar.“   

Þegar einstaklingur sem barnaverndarnefnd í viðkomandi sveitarfélagi hefur haft afskipti af flytur í annað sveitarfélag ber nefndinni að tilkynna um flutninginn til sambærilegrar nefndar í því sveitarfélagi og flytja málið yfir. „Það þýðir þá að öll gögn eru flutt yfir og oft hafa nefndirnar fund sín á milli þar sem farið er yfir allar aðgerðir sem gripið hefur verið til þannig að nefndin á nýja staðnum fái heildstæða mynd af málinu,“ segir Bragi.  

Við fyrstu sýn telur Bragi að mál móðurinnar hafi fylgt henni í gegnum flutninga úr einu sveitarfélagi yfir í annað. „Það er reynt að tryggja þetta eftir bestu getu að það sé samfella við vinnslu málsins og ég sé ekkert í lestri dómsins sem slíks að þarna hafi verið pottur brotinn, en það kann vel að vera, við þurfum bara að skoða það til að geta fullyrt um það.“

Fjöldi umdæma flækir málsmeðferð

Barnaverndarstofa er ríkisstofnun sem hefur eftirlit með störfum þeirra 27 barnaverndarnefnda sem starfa í sveitarfélögunum. „Úrvinnsla einstakra mála er alfarið á valdi barnaverndarnefnda sveitarfélaganna,“ segir Bragi. Barnaverndarstofa getur hins vegar tekið ákvörðun um að hefja eftirlit að eigin frumkvæði og segir Bragi að mögulegt sé að svo verði gert í kjölfar dómsins sem féll á þriðjudag. „Það er til skoðunar og það er þá alltaf hugsunin að læra af því og að geta bætt úr í kerfinu.“

Bragi telur að það skapi ákveðinn vanda í barnaverndarstarfi á Íslandi hversu mörg barnaverndarumdæmin eru. Að hans mati er tvennt í stöðunni til að auka skilvirkni barnaverndarstarfs hér á landi.

„Mér finnst tímabært að taka stóru myndina til skoðunar, annaðhvort með það fyrir augum að fækka barnaverndarnefndum verulega í landinu og draga þá úr líkum þess að til þess komi að flytja þurfi mál á milli umdæma. Hins vegar má endurskoða verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga með það fyrir augum að tryggja samfellu við vinnslu alvarlegustu barnaverndarmálanna.“ Í þeim málum yrði landið eitt umdæmi.

Fleiri dómar sem vekja upp spurningar

„Ég held að það sé margt sem við gerum ágætlega á Íslandi í þessum efnum en auðvitað eru það akkúrat mál af þessum toga, og það hafa komið fleiri svona dómar nýlega, sem vissulega hljóta að vera tilefni þess að við spyrjum okkur mjög áleitinna spurninga um fyrirkomulagið sem er á þessum málaflokki á Íslandi í dag,“ segir Bragi.  

Meðal dóma sem Bragi vísar í er einn frá Héraðsdóm­i Norður­lands eystra sem dæmdi í sumar karl­mann um átt­rætt til fjög­urra ára fang­elsis­vist­ar fyr­ir að hafa brotið kyn­ferðis­lega á þrem­ur barna­börn­um sín­um yfir tíu ára tíma­bil.

Frétt mbl.is: Braut kynferðislega gegn barnabörnum

„Það er einmitt mál þar sem við tókum upp eftirlit að eigin frumkvæði og því er að ljúka. Við fengum ekki betur séð en að þar hafi barnalæknir ekki rækt sína lagaskyldu og tilkynnt upplýsingar sem hann bjó yfir til viðkomandi barnaverndarnefndar og við beindum erindi til landlæknisembættisins,“ segir Bragi. Málið er nú til meðferðar hjá landlækni.

Bragi segir að það skipti öllu máli að þegar dómur fellur sem felur í sér alvarleg brot á réttindum barna þar sem börn sæta misþyrmingum og ofbeldi yfir lengra tímabil verði málið tekið til sérstakrar skoðunar hjá Barnaverndarstofu. „Við verðum að leggja allt í sölurnar til að fyrirbyggja að svona lagað geti gerst og ég trúi því að við getum gert það ef við bætum úr þeim annmörkum sem kerfið býr yfir í dag.“  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert