Varað við suðaustan stormi á morgun

Vindaspá kl. 21 á morgun, sunnudag.
Vindaspá kl. 21 á morgun, sunnudag. Kort/Veðurstofa Íslands

Á vef Veðurstofu Íslands er varað við djúpri lægð yfir landinu og suðaustan stormi á morgun, og samkvæmt upplýsingum frá veðurfræðingi stofunnar verður vindhraði allt að 20 til 28 m/s og hvassast suðvestan til á landinu, eða allt frá Eyjafjöllum og norður yfir Snæfellsnes.

Storminum mun fylgja rigning og slydda sunnan- og vestanlands og snjókoma norðvestan til en úrkomulítið verður annars staðar.

Veðurfræðingur vill taka sérstaklega fram að hvassast verði við ströndina og á hálendinu. „Veðrið fer að spillast til fjalla strax eftir hádegi þannig að þeir sem eru að leita að rjúpu verða að hafa virkilega varann á sér og fara snemma til baka.“

Á höfuðborgarsvæðinu má gera ráð fyrir að stormurinn nái hámarki á milli kl. 18 og 22 og ætti að vera alveg genginn niður um miðnætti.

Veðurstofa biðlar til fólks um að líta í kring um sig og ganga frá lausum munum ef það er ekki búið að því nú þegar.

Búast má við samgöngutruflunum m.a. við Kjalarnes, Hellisheiði og Reykjanesbraut og mælir veðurfræðingur gegn því að fólk sé á ferðinni að óþörfu. Ferðlalög innanbæjar á höfuðborgarsvæðinu ættu að vera í lagi svo fremi sem lausamunir fari ekki á flug, t.d. sorptunnur og garðhúsgögn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert