Strandaglópar fá súkkulaði og vatn

Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Nokkur fjöldi flugfarþega er nú strandaglópar í flugstöð Leifs Eiríkssonar. Mörgum flugferðum hefur ýmist verið aflýst eða frestað verulega í dag og í kvöld þar sem þar sem mikið hvassviðri hefur raskað flugsamgöngum. „Þetta er auðvitað leiðinleg bið en það þarf að fylgja öryggisreglum í flugi,“ segir Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia, í samtali við mbl.is.

Hann kveðst ekki vita hversu margir farþegar séu að bíða í flugstöðinni, svo virðist þó sem flugfélögin hafi látið farþega sína vita með góðum fyrirvara ef flugi var seinkað eða aflýst, sem gerir það að verkum að færri bíða í flugstöðinni en ella.

Á samfélagsmiðlum hafa margir farþegar lýst yfir áhyggjum sínum af ástandinu, einkum erlendir flugfarþegar sem ekki hafa áður orðið fyrir barðinu á íslenskum haustlægðum eins og þeirri sem nú gengur yfir. Á Twitter greindi einn til að mynda frá því að starfsfólk flugvallarins væri að dreifa súkkulaði til farþega sem sitja fastir í flugstöðinni.

Að sögn Guðna er vatn og súkkulaði yfirleitt gefið farþegum þegar aðstæður sem þessar koma upp á flugvellinum. Þá verður einnig reynt að halda verslunum og veitingastöðum opnum á meðan farþegar eru fastir í flugstöðinni.

Þá hefur einnig nokkuð borið á kvörtunum bæði á Facebook og Twitter í garð Icelandair þar sem farþegum hefur reynst erfitt að ná sambandi við fyrirtækið til að fá upplýsingar um seinkanir.

„Flugvellinum er aldrei lokað og ef það væri flugvél að koma til lendingar sem hefði flughæfni og treysti sér í að lenda væri henni leyft það,“ segir Guðni. Vindurinn er hins vegar sem stendur of mikill til að hægt sé að athafna sig á flugvellinum.

„Þegar vindstyrkur fer yfir 20-25 m/sek þá á ákveðnum tímapunkti er styrkurinn orðinn of mikill fyrir ranana og þá getur skapað hættu að tengjast þeim,“ segir Guðni. „Mér sýnist flugfélögin hafa seinkað verulega eða aflýst fluginu og hyggist fara þá frekar í kvöld þegar fer að lægja.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert