Byggingarmagn við Kringluna aukið um 150%

Samkvæmt vinningstillögunni verður byggt upp meðfram Kringlumýrarbrautinni og Miklubrautinni sem …
Samkvæmt vinningstillögunni verður byggt upp meðfram Kringlumýrarbrautinni og Miklubrautinni sem og á horninu við Verzlunarskólann. Dómnefndin tók hins vegar ekki vel í hugmyndir um aukna byggð ofan á Kringlunni sjálfri og taldi torgið austan við Hús verslunarinnar of stórt. Teikning/Kanon arkitektar

Heildarbyggingarmagn á Kringlureitnum gæti aukist um 150%, eða sem nemur 150 þúsund fermetrum, á komandi árum gangi áform eftir í tengslum við vinningstillögu fyrir svæðið sem kynnt var í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag. Gert er ráð fyrir 400-600 íbúðum á svæðinu, og jafnvel fleirum, auk þess að stækka verslunarhúsnæði Kringlunnar sjálfrar og bæta við verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Í heild er horft til þess að á milli 1 og 2 þúsund manns geti unnið á reitnum.

Það voru Kanon arkitektar sem áttu vinningstillöguna, en fimm stofur höfðu verið valdar til að taka þátt í samkeppninni sem haldin var af fasteignafélaginu Reitum, sem á stærstan hlut eigna á svæðinu, og Reykjavíkurborg.

Úr turnabyggð í randbyggð

Hjálmar Sveinsson, formaður dómnefndar og borgarfulltrúi, segir í samtali við mbl.is að vinningstillagan sýni fram á heilmikla uppbyggingarmöguleika á Kringlusvæðinu. Eldri tillögur fyrir svæðið hafi gert ráð fyrir mikilli turnabyggð, en nýja tillagan sýni fram á verulega aukið byggingarmagn með 400-600 íbúðum eða fleirum í klassísku borgarskipulagi.

Vísar hann þar til þess að uppbygging á svæðinu samkvæmt vinningstillögunni er svokölluð randbyggð, eða ferningar utan um inngarða. Slík dæmi er meðal annars að finna í gamla Vesturbænum og Norðurmýri auk þess að vera vel þekkt í evrópskum borgum, til dæmis Kaupmannahöfn og Barcelona.

Á tillögunni eru stoppistöðvar fyrir borgarlínu sýndar við Miklubraut og Kringlumýrarbraut, en Hjálmar segir að einnig sé möguleiki á að slík stöð væri færð inn á sjálft Kringlusvæðið. Þá segir hann mikilvægt að við deiliskipulagsvinnu verði farið í að opna svæðið út í nærliggjandi hverfi fyrir gangandi umferð. „Þetta má ekki verða eins og lokað virki inn í borginni,“ segir hann, en í dag er aðgengi að Kringlureitnum að mestu með bílaumferð.

Vinningstillagan var kynnt í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag.
Vinningstillagan var kynnt í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Úr 100.000 fm í 250.000 fm

Friðjón Sigurðarson hjá Reitum segir í samtali við mbl.is að vinningstillagan geri ráð fyrir um 180 þúsund fermetrum í nýbyggingar, en að dómnefndin hafi talið nokkrar byggingar óraunhæfar fyrir heildarmyndina. Þetta séu byggingar sem myndi svokallaðan krans um Kringluna sjálfa. Segir hann að með því að fækka þeim verði heildarmagn nýbygginga um 150 þúsund fermetrar, en á reitnum í dag eru um 100 þúsund fermetrar byggðir, „sem er gisið nýtingarhlutfall,“ segir Friðjón.

Byggðin er svokölluð randbyggð, en slík byggð er hugsuð sem …
Byggðin er svokölluð randbyggð, en slík byggð er hugsuð sem ferningar með inngarði. Teikning/Kanon arkitektar

Hlutverk svæðisins gæti breyst

Hann segir tengingu við borgarlínu geta breytt hlutverki svæðisins. Þannig gæti það orðið að meiri samblöndu af verslunar- og menningarmiðstöð með lengri afgreiðslutíma. Þrátt fyrir það segir hann að verslunarmiðstöðin þurfi að hafa góðar tengingar fyrir bílaumferð og fjölda stæða og horft verði til þess við alla hönnun. Miklir bílakjallarar muni vera undir öllu svæðinu og segir hann að helsti flöskuháls uppbyggingarinnar geti verið umferðartengingar við helstu umferðaræðar.

Friðjón reiknar með að skipulagsrammi fyrir svæðið verði kláraður strax á fyrri hluta næsta árs og svo verði farið í deiliskipulagsáfanga í kjölfarið. Segist hann vona að vinna við svæðið geti svo hafist fyrir 2020.

Vinningstillöguna má skoða nánar á vef Reykjavíkurborgar.

Vinningshafarnir frá Kanon arkitektum.
Vinningshafarnir frá Kanon arkitektum. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert