Búa við raunverulega hættu heimafyrir

William Kyeremateng og kona hans Theresa Kusi Daban með börnum …
William Kyeremateng og kona hans Theresa Kusi Daban með börnum sínum Stefaniu, Nathaniel og Aaron. Þau William og Theresa höfðu búið á Ítalíu í 17 ár og voru með ítalskan ríkisborgararétt er þau komu hingað til lands í leit að vinnu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Útlendingastofnun ætlar að vísa fimm börnum og fjölskyldum þeirra úr landi á næstu dögum. Önnur fjölskyldan, sem er upphaflega frá Ghana, hefur dvalið hér lengur en í 15 mánuði og lenti að því er virðist fyrir mistök í hælisleitendaferlinu. Hin fjölskyldan kemur frá Ísrael, þar sem hún bjó við  raunverulega hættu heimafyrir að sögn Guðmundar Karls Karlssonar, sem þekkir fjölskyldurnar vel. 

„Báðar þessar fjölskyldur eiga það sameiginlegt að eiginmennirnir vinna fulla vinnu í ferðamannageiranum,  oft 10-12 tíma á dag, og eru því að afla ríkisjóðs tekna í formi skatta og gjaldeyris,“ segir Guðmundur Karl. „Þeir fá báðir hæstu meðmæli vinnuveitenda sinna og þykja virkilega duglegir og hæfir starfsmenn sem vinnuveitendurnir vilja ekki missa.“

Þau börn sem séu á skólaaldri séu þá komin í skóla og gangi vel að læra íslenskuna.

Guðmundur Karl og Stefanía,sem hér er uppáklædd á leið í …
Guðmundur Karl og Stefanía,sem hér er uppáklædd á leið í afmæli. Ljósmynd/Ragna Engilbertsdóttir

Ítalskir ríkisborgarar sem komu í leit að vinnu 

Kærunefnd útlendingamála sé hins vegar ósveigjanleg í túlkun sinni á lögunum og segir Guðmundur Karl hana m.a. túlka lögin þröngt í máli þeirra William Kyeremateng og Theresu Kusi Daban frá Ghana. Nefndin miði þannig dagsetningu sína við fyrsta úrskurð i máli þeirra, þrátt fyrir að lögin sem samþykkt voru í sumar segi að miða skuli við 15 mánuði frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum þegar um barn sé að ræða. „Umsóknin barst við komuna til landsins,“ segir Guðmundur Karl. Aukinheldur fæddist þriðja barn þeirra Theresu og Williams hér á landi. Þjóðskrá segi barnið hins vegar ekki vera með kennitölu hér á landi og því ekki heldur með lögheimili hér.

Mál þeirra Williams og Theresu er all sérstætt að sögn Guðmundar Karls, enda stóð ekki til hjá þeim að sækja um hæli. Þau komu til Íslands frá Ítalíu í febrúar í fyrra ásamt börnum sínum Stefaniu Boakyewaa, sem er í dag 6 ára og Nathaniel 3 ára. Þeim fæddist svo sonurinn Aaron eftir komuna hingað.

„Þau voru búin að búa á Ítalíu í 17 ár og voru með ítalskan ríkisborgararétt. Líkt og margir aðrir misstu þau hins vegar vinnuna í erfiðu efnahagsástandi og komu því hingað til lands í leit að vinnu líkt og ríkisborgarar Evrópusambandsríkja eiga að geta gert,“ segir Guðmundur Karl. Við komuna hingað hafi þau hins vegar verið sett inn í hælisleitendakerfið, sem hafi aldrei verið ætlun þeirra. „Þau höfðu ekki einu sinni áður heyrt þetta orð „asylum“.

Fann vinnu um leið og hann gat

Líkt og til stóð í upphafi fann William sér vinnu um leið og hann gat, enda rangt að hælisleitendur geti ekki unnið hér á landi. Til þess þurfa þeir hins vegar tímabundið dvalar- og atvinnuleyfi sem tekur um sex vikur að útvega. William starfar hjá bílaleigu í Reykjavík og þiggur fjölskyldan því ekki bætur. Þau hafa enn fremur fengið vilyrði leigusalans, sem Útlendingastofnun útvegaði þeim húsnæði hjá, um að hann sé til í að leigja þeim áfram húsnæðið sem þau búa í.

Útlendingastofnun hefur fjórum sinnum synjað þeim um hæli, en Guðmundur Karl vonast þó til að hægt verði að fara með mál þeirra fyrir dómstóla. „Þau verða samt af einhverjum óskiljanlegum ástæðum engu að síður send úr landi og það til Ghana, þangað sem þau hafa ekki komið í 17 ár. Þetta á að gera þrátt fyrir að þau hafi stjórnarskrárvarinn rétt til að vera viðstödd eigin málarekstur.“

Þau Hanadi og Mono Sbehat ásamt börnum sínum þeim Omar …
Þau Hanadi og Mono Sbehat ásamt börnum sínum þeim Omar og Shadi. Hann starfar sem kokkur hér á landi og drengirnir eru í skóla og gengur vel að ná tökum á íslenskunni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Flúðu blóðhefnd í heimaþorpi sínu

Aðstæður þeirra Muhamad Sadat og Hanadi Sbehat og barna þeirra, þeirra Omar og Shadi eru nokkuð aðrar.  Þau eru arabar frá Ísrael sem komu hingað til lands fyrir tæpum 12 mánuðum. Líkt og William þá hefur Muhamad, eða Mono eins og hann er kallaður unnið fulla vinnu frá því hann fékk leyfi til, en hann starfaði sem kokkur í heimalandi sínu og starfar einnig sem slíkur hér.

Guðmundur Karl segir Hanadi einnig vera góðan kokk og afbragðs bakara. Henni hafi verið gert að ganga með höfuðslæðu (hijab) í Ísrael, sem henni hafi ekki hugnast og því hafi hún tekið slæðuna niður þegar þau fluttu hingað. 

Þeir Omar og Shadi, sem eru 5 og 6 ára, eru báðir í skóla og gengur vel að læra íslenskuna.

Kærunefndin segir Ísrael hins vegar vera öruggt land og því beri að senda fjölskylduna til baka. Guðmundur Karl segir þetta hins vegar ekki alls kostar rétt hjá nefndinni.  Sbehat fjölskyldan býr í arabahverfi í litlu þorpi í Ísrael þar sem illdeilur hafa komið upp milli þriggja arabætta sem þar búa. Blóðhefndar hefur verið leitað og þar sem Shebat fjölskyldan tilheyri einni ættinni þá er líf þeirra í hættu.

Þeir Omar og Shadi eru fimm og sex ára gamlir …
Þeir Omar og Shadi eru fimm og sex ára gamlir og gengur ágætlega að læra íslensku. mbl.is/Kristinn Magnússon

Óstöðugt og slæmt ástand

„Það er reglulega skotið þarna á milli og lögreglan fer ekki inn í þetta hverfi,“ segir hann. Skotárás í hverfinu rataði meira að segja inn í fréttir í Ísrael fyrir skemmstu.  „Á myndbandi með fréttinni sjást lögreglumenn tala saman og segja að þeir ætli ekki inn í hverfið,“ útskýrir Guðmundur Karl.

„Það er mjög óstöðugt og slæmt ástand þarna,“ segir hann og sú fullyrðing kærunefndarinnar að lögreglan geti verndað þau sé því ekki rétt. „Kærunefnd tekur líka fram máli sínu til stuðnings að Ísrael sé meira að segja með samtök fyrir réttindi samkynhneigðra. Það kemur málinu hins vegar ekkert við, því ekkert þeirra er samkynhneigt. Þannig að ég veit ekki alveg hvernig er hægt að byggja úrskurðinn á því.“ 

Guðmundur Karl bendir enn fremur á að Ísrael sé ekkert öruggt land fyrir araba, það viti allir sem það vilji vita.

Allar kæruleiðir eru nú fullreyndar í máli Sbehat fjölskyldunnar og því nokkuð ljóst að þau verði send úr landi að sögn Guðmundar Karls. „Það er búið að reyna mikið og lögfræðihliðin er fullreynd. Það er þó alveg heimild í lögum að leyfa þeim að vera, en svo virðist sem að pólitíski áhuginn sé ekki fyrir hendi.“

Hliðstólpi við þorpið sem Sbehat fjölskyldan bjó í Ísrael.
Hliðstólpi við þorpið sem Sbehat fjölskyldan bjó í Ísrael. "Velkomin til helvítis" er ritað á stólpann, en Guðmundur Karl segir ástandið þar mjög óstöðugt. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert