Spaðadrottningin og fleiri fínar rússneskar

Áslaug og Óskar Árni vinna saman að þýðingum á völdum …
Áslaug og Óskar Árni vinna saman að þýðingum á völdum örsögum Rússans Daniil Kharms. mbl.is/Kristinn Magnússon

Trúlega hefur Áslaug Agnarsdóttir, þýðandi og sérfræðingur hjá Landsbókasafni Íslands, að einu leyti verið frábrugðin flestum skólafélögum sínum á menntaskólaárunum. Hún las nefnilega ógrynnin öll af rússneskum 19. aldar bókmenntum og var alveg heilluð af þeim heimi sem þar birtist ljóslifandi.

Fjodor Dostojevskí, Anton Tsjekhov og margir fleiri voru hennar eftirlætishöfundar. Og eru enn. Verkin tala. Sögur frá Rússlandi er hennar nýjasta þýðingarverk. Meistaralega þýdd svo vitnað sé í annarra manna orð. Innbundin bók og áferðarfalleg eins og allir sjá.

„Hin magnaða ástarsaga Konan með hundinn, eftirlætissagan mín eftir Tsjekhov, er þó ekki í bókinni, enda hefur hún verið þýdd á íslensku áður. Sögurnar eru ellefu talsins og allar eftir skáld, sem ég held mikið upp á og fæddust fyrir byltinguna árið 1917. Annars á ég ákaflega erfitt með að gera upp á milli þessara ólíku höfunda, sem ég á endanum valdi. Þeir eru allir mínir uppáhalds, ekki síst Lev Tolstjoj – já, og Aleksander Púshkín.“ segir Áslaug.

Samkennd með minnimáttar

Auk þeirra fjögurra sem þegar hafa verið nefndir valdi hún sögur eftir Níkolaj Gogol, Ívan Túrgenev, Ívan Búnin og Teffí, sem er eini kvenhöfundurinn í hópnum. „Mig langaði ekki að hafa eintóma karla, en fáar konur voru að skrifa á þessum árum og Teffí sú eina sem höfðaði til mín með sínum léttu og skemmtilegu sögum. Ef ég ætlaði að taka saman sambærilegt smásögusafn 20. aldar rússneskra skálda væri ég ekki í sömu vandræðunum,“ segir Áslaug, en viðurkennir síðar í samtalinu að raunar sé hún þegar byrjuð að vinna að slíku smásagnasafni.

Aftast í nýju bókinni stiklar Áslaug á stóru um ævi og störf höfundanna. Þótt þeir séu um margt ólíkir, voru allir nema Dostojevskí og Tsjekhov af aðalsættum eða komnir af vel stæðum landeigendum og áttu það að sögn Áslaugar sameiginlegt að hafa samkennd með þeim sem minna máttu sín. „Túrgenev skrifaði til dæmis mikið um ánauðuga bændur og kjör þeirra sem speglast í Múmú, einni sögunni í bókinni.“

Áslaug er með cand. mag próf í bókmenntum, ensku og rússnesku frá Oslóarháskóla, þar sem hún var við nám á árunum 1970 til 1975. Hún fékk styrk frá rússneska ríkinu til að læra rússnesku við Háskólann í Moskvu veturinn 1975/1976.

Njósnir og menningarreisa

Moskva 1974. Áslaug þriðja frá hægri í öftustu röð ásamt …
Moskva 1974. Áslaug þriðja frá hægri í öftustu röð ásamt hópi Norðmanna, sem voru á námskeiði við Patrice Lumumba-háskólann í Moskvu. Námskeiðið var hluti af rússneskunáminu við Oslóarháskóla.


„Ég var svo heppin að vera eini Íslendingurinn sem sótti um og því fékk ég styrkinn. Dvölin var algjört ævintýri og gerði þann gæfumun að ég varð vel talandi á rússnesku. Þetta var á Brezhnev tímanum, sem kallaður var tími stöðnunar, enda frekar rólegt yfir öllu og enginn æsingur í pólitíkinni,“ segir Áslaug og heldur áfram: „Þetta voru náttúrlega Sovétríkin og vel fylgst með útlendingunum eins og ekki fór fram hjá okkur á stúdentagörðunum. Við vissum alveg að þeir fáu Rússar sem bjuggu þar fylgdust með okkur, þótt þeir blönduðu ekki geði við okkur.“

Síðan hefur Áslaug fimm sinnum farið til Moskvu og því séð þjóðfélagsbreytingarnar með eigin augum „Miklu meiri velmegun blasir víðast hvar við, þótt fólk á eftirlaunum hafi það ekki eins gott og forðum þegar eitt af slagorðunum var að ríkið sæi um manneskjuna frá vöggu til grafar. Með falli Sovétríkjanna voru þessi fyrirheit fyrir bí.“

Síðast fór Áslaug árið 2007 í mikla menningarreisu til Moskvu ásamt manni sínum, Óskari Árna Óskarssyni ljóðskáldi. Ferðin var í boði rússneska sendiráðsins og Vináttufélags Rússlands og Íslands í samstarfi við háskólann þar í borg. „Rússneskir íslenskunemar við háskólann höfðu þýtt ljóð Óskars á rússnesku, sem þeir lásu upp og buðu honum síðan að lesa þau á íslensku. Ferðin var um miðjan nóvember þannig að Dagur íslenskrar tungu féll þarna inn í og ég var af því tilefni með smáerindi um Jónas Hallgrímsson og Púshkín á fundi hjá Vináttufélaginu.“

Rússneska nafnahefðin

Með kúst í hendi. Áslaug ásamt norskum vinkonum sínum í …
Með kúst í hendi. Áslaug ásamt norskum vinkonum sínum í sjálfboðavinnu við að þrífa neðanjarðarbrautarstöð í Moskvu.


Spurð hvort rússneskan sé erfitt tungumál að læra, kveður hún svo ekki vera. Hins vegar blekki að stafrófið sé ólíkt hinu evrópska. „Málfræðin er strembin og eins getur verið erfitt fyrir fólk að átta sig á rússneskum nöfnum, sem eru með alls konar mismunandi endingum. Margir heita mörgum nöfnum auk ættarnafns, hafa einnig gælunafn og eru kallaðir sitt á hvað öllum nöfnunum,“ útskýrir Áslaug.

Eins og nærri má geta er þessu eins farið í rússneskum bókmenntum og því finnst lesendum – öðrum en Rússum væntanlega – stundum svolítið erfitt að henda reiður á persónugalleríinu. Áslaug útskýrir að nafnið sem notað er hverju sinni gefi til kynna innbyrðis afstöðu söguhetjanna og sé því í rauninni nokkurs konar táknmál.

Áslaug átti frumkvæðið að því að tala við útgefandann hjá Bókaútgáfunni Uglu og fá hann til að gefa út Sögur frá Rússlandi. „Ég var byrjuð að þýða Spaðadrottninguna eftir Púshkín, eins og mig hafði lengi langað til, þegar mér datt í hug að safna og þýða fleiri sögur og gefa út í bók,“ segir Áslaug sem um leið hefur fært landanum íslenska þýðingu af Spaðadrottningu Púshkín í allt annarri útgáfu en til er í fágætu bíóprógrammi Hafnarbíós frá árinu 1949. „Þá var sýnd Hollywood-kvikmynd eftir sögunni og prentuð prógrömm með söguþræðinum, sem væntanlega var þýddur úr ensku.“

Smásögur í tísku

Áslaug segist skynja aukinn áhuga Íslendinga á rússneskum bókmenntum sem og smásögum, bæði íslenskum og erlendum. „Smásögur eru í tísku,“ fullyrðir hún brosandi og bendir á að auk sinna rússnesku smásagna njóti ritröðin Smásögur heimsins frá Bjarti töluverðra vinsælda. Og lætur þess getið að hún og ritstjórar þeirra verði með spjall um smásögur á dagskrá Bókamessu í Hörpu á sunnudaginn.

Frá því Áslaug byrjaði í hlutastarfi í Landsbókasafninu fyrir réttu ári, hefur hún haft meiri tíma til að sinna sínu helsta hugðarefni: þýðingum. Sögur frá Rússlandi er ekki eina afrek hennar á því sviði þetta árið því fyrr á árinu kom út í kilju þýðing hennar á skáldsögunni Kona frá öðru landi eftir 20. aldar höfundinn Sergej Dovlatov. „Sagan fjallar um Rússa sem búa í New York, en sjálfur bjó höfundurinn, þar síðustu ár ævi sinnar,“ segir Áslaug, sem að beiðni Bjarts bókaforlags þýddi sína fyrstu bók, Dauðinn og mörgæsin eftir Andrej Kúrkov, úr rússnesku árið 2005.

Skemmtileg glíma

„Ég nýt þess að glíma við tungumálin og koma setningunum yfir á góða íslensku. Oft veldur það manni miklum heilabrotum og þá finnst mér gott að leggja verkið frá mér um stund því fyrir kemur að lausninni lýstur óvænt niður í kollinn á manni. Ef ég er í miklum vandræðum leita ég ráða hjá rússneskumælandi kunningjum eða ég sendi tölvupóst til Helga Haraldssonar, gamla prófessorsins míns í Oslóarháskóla.

Upp úr dúrnum kemur að Áslaug er ekki aðeins byrjuð að þýða smásögur 20. aldar rússneskra höfunda, heldur vinna þau hjónin saman að þýðingum á völdum örsögum Rússans Daniil Kharms. „Kharms var uppi á fyrri hluta 20. aldar og þekktur fyrir sínar húmorísku og absúrd sögur, sem höfða kannski ekki til allra, en mjög mikið til okkar beggja.“

Áslaug hikar ekki þegar hún er spurð hvort hún eigi sér draum um að þýða eitthvert sérstakt rússneskt bókmenntaverk: „Stríð og frið eftir Lev Tolstjoj,“ svarar hún. Tvímælalaust þýðingarmikið verk.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert