Stolið kjöt í mögum landsmanna

Nautakjöt.
Nautakjöt. mbl.is/AFP

Rannsókn lögreglu á meintum brotum þriggja karlmanna, sem grunaðir eru um að hafa stolið gífurlegu magni af kjöti úr frystiklefa flugþjónustufyrirtækis á Keflavíkurflugvelli, er á lokametrum. Verið er að hnýta lausa enda áður en málið verður sent til ákæruvaldsins.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurnesjum hafa tveir menn, starfsmenn umrædds fyrirtækis, verið samvinnuþýðir við úrlausn málsins en þriðji maðurinn, vitorðsmaður hinna tveggja, ekki. Fram hefur komið að heima hjá honum fundist 168 kíló af nautakjöti við húsleit lögreglu. 

Í tilkynningu sem lögregla sendi frá sér í síðasta mánuði kom fram að sígarettukartonum hafi einnig verið stolið en aðallega hafi þýfið verið nautalundir og lambakjöt. Mennirnir hafi rofið innsigli á vögnum sem innihéldu tollfrjálsan varning sem átti að fara um borð í flugvélar, og stolið. Myndbandsupptökur úr öryggismyndavélum hafi svo leitt í ljós hversu stórtækir mennirnir hafi verið.

Jón Halldór Sigurðsson, hjá lögreglunni á Suðurnesjum segir að verið sé að ganga frá lausum endum áður en málið verður sent áfram. Ljóst sé að þjófnaðurinn hafi staðið yfir í fjögur til fimm ár, en mestu hafi verið stolið á þessu ári. Hann segir að einn mannanna hafi komið við sögu lögreglu áður en hinir ekki.

Jón Halldór segir aðspurður að lögregla hafi ekki elt uppi kaupendur kjötsins enda sé erfitt að sýna fram á hvað liggi að baki millifærslum á bankareikninga. Ekkert bókhald sé til um söluna. Spurður hvað hann telji að hafi orðið um kjötið svarar hann: „Kjötið hefur nú líklega endað í mögum landsmanna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert