Flugeldasala og gistiskýli fari ekki saman

Eigendur fyrirtækja í húsnæði við Bíldshöfða 18 í Reykjavík krefjast þess að sýslumaður leggi lögbann á fyrirhugað gistiskýli Útlendingastofnunar í húsinu, en til stendur að hýsa þar 70 hælisleitendur. Frá þessu var greint í kvöldfréttum RÚV.

Um er að ræða eigendur fjórtán fyrirtækja og segir lögmaður þeirra í samtali við RÚV að ef lögbannið verði ekki samþykkt, og gistiskýlið verði að veruleika, verði höfðað skaðabótamál.

Lúðvík Örn Steinarsson, lögmaður fyrirtækjanna, segir að umbjóðendur sínir telji að ónæði geti skapast vegna þess reksturs sem fyrirhugaður er í húsinu. Þá telja þeir að eignir þeirra kunni að rýrna að verðmæti og að þær kunni að verða ill- eða óseljanlegar.

Lúðvík bendir einnig á að í húsnæðinu sé að finna starfsemi sem ekki eigi heima í nágrenni mannabústaða. „Þarna er starfsemi sem er í samræmi við gildandi skipulag; þarna er blikksmiður, trésmíðaverkstæði og þarna er flugeldasala og það sjá það allir sem sjá vilja að slík starfsemi fer aldrei saman við rekstur gistiskýlis,“ segir hann í samtali við RÚV.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert