Ógn fylgi innflutningi á fersku kjöti

Karl segir að enginn viti hvað átt hafi fyrr en …
Karl segir að enginn viti hvað átt hafi fyrr en misst hafi. AFP

Karl G. Kristinsson, yfirlæknir á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans, segir ómetanlegt að á Íslandi sé minnst sýklalyfjaónæmi af löndum Evrópu, eins og árleg skýrsla Evrópsku sóttvarnarmiðstöðvarinnar sýnir. Skýrslan fjallar um sýklalyfjaónæmi í helstu bakteríum sem valda blóðsýkingum í löndum Evrópu og var gefin út á evrópskum degi vitundarvakningar um sýklalyf 14. nóvember.

Sýklalyfjaónæmi er ein helsta lýðheilsuógn heimsins í dag og segir Karl það frábært að staðan á Íslandi sé svo góð. „Þá spyr maður sig hvers vegna staðan hjá okkur sé svona góð og hvort líklegt sé að hún verði svona áfram,“ segir Karl og að skýrslan komi á góðum tíma inn í umræðurnar í kringum dóm EFTA þess efnis að innflutningstakmarkanir á fersku kjöti séu ólögmætar.

Notkun og ónæmi fylgist að

„Það sem helst veldur sýklalyfjaónæmi er náttúrulega notkun sýklalyfja. Hér nota menn meira af sýklalyfjum en hinar Norðurlandaþjóðirnar, en samt er ónæmi minna hér en hjá hinum þjóðunum. Hvað alla Evrópu varðar erum við kannski um miðbikið í sýklalyfjanotkun, en erum samt með minna ónæmi.“ Karl segir Íslendinga skera sig úr hvað varðar sýklalyfjanotkun í landbúnaði. „Hér er sýklalyfjanotkun hjá dýrum einna lægst.“

Karl telur nokkrar ástæður mögulegar fyrir góðri stöðu Íslands hvað varðar sýklalyfjaónæmi. „Það gæti annars vegar verið einangrun landsins og þær hömlur sem settar hafa verið á innflutning á fersku kjöti og hins vegar þær aðgerðir sem eru viðhafðar í sýkingavörnum á sjúkrahúsunum.“

Karl G. Kristinsson vonast til að Ísland geti haldið sérstöðu …
Karl G. Kristinsson vonast til að Ísland geti haldið sérstöðu sinni með minnst sýklalyfjaónæmi af löndum Evrópu. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Það sem við erum að gera virðist skila árangri og hvers vegna ekki að reyna að viðhalda þessum góða árangri. Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur,“ segir Karl og að sjálfsögðu fylgi því ógn að heimila óheftan innflutning á fersku kjöti, og þá sérstaklega kjúklingum.

Áhættan aðallega tengd kjúklingum

„Áhættan er kannski ekki mikil tengd kjöti úr stórgripum, nema þá helst svínakjöti, en aðaláhættan er tengd kjúklingum. Slátrun kjúklinga gerir það að verkum að kjötið er mjög mengað af iðrabakteríum þeirra, svo sem kólíbakteríu, kampýlóbakteríu og salmónellu.“

„Að flytja inn kjúklinga t.d. frá löndum Suður-Evrópu, þar sem mjög mikið er notað af sýklalyfjum, eykur náttúrulega álagið hér og áhættuna á sýklalyfjaónæmi. Það skiptir verulega máli að geta meðhöndlað alvarlegar sýkingar á sjúkrahúsum og sýklalyfjaónæmi gerir slíka meðhöndlun mun erfiðari.“

Karl segir stöðuna vera í takt við það sem verið hefur undanfarin ár og vonast til að Ísland geti haldið sérstöðu sinni.

Aðaláhættuna segir Karl geta komið frá innfluttum kjúklingi.
Aðaláhættuna segir Karl geta komið frá innfluttum kjúklingi. Brynjar Gauti
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert