1.545 hafa látist í umferðinni hér á landi

Minningarathöfn fór fram við Landspítalann í Fossvogi í dag.
Minningarathöfn fór fram við Landspítalann í Fossvogi í dag. Haraldur Jónasson / Hari

Þann 1. nóvember 2017 höfðu alls 1.545 manns látist í umferðinni á Íslandi frá því að skipt var yfir í hægri umferð 26. maí 1968.

Að meðaltali hefur umferðarslysum fækkað mikið undanfarna áratugi, sérstaklega banaslysum. Árin 2007-2016 létust að jafnaði 12,3 á hverju ári í umferðinni. Næstu 10 ár þar á undan létust að jafnaði 24,4 á ári. Því má ætla að með betri bílum, betri vegum og betri hegðun ökumanna hafi tekist að bjarga um 12 mannslífum á hverju ári síðustu 10 árin.

Í dag er alþjóðlegur minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa og var þeirra minnst sem látist hafa í umferðinni hér á landi við þyrlupall bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi í morgun. Þá voru jafnframt heiðraðar þær starfstéttir sem sinna björgun og aðhlynningu þegar umferðarslys verður.

Ein af þyrlum Landhelgisgæslunnar lenti á þyrlupallinum rétt fyrir athöfnina og var ökutækjum viðbragðsaðila stillt upp við þyrluna; sjúkrabílum, slökkviliðsbílum, björgunarsveitarbílum og fleirum.

Starfsstéttir sem koma að umferðarslysum voru heiðraðar.
Starfsstéttir sem koma að umferðarslysum voru heiðraðar. Haraldur Jónasson / Hari

Er þetta í sjötta sinn sem slík athöfn er haldin hér á landi en hliðstæðar athafnir fara fram víða um heim að tilhlutan Sameinuðu þjóðanna sem hafa tileinkað þriðja sunnudag í nóvember þessari minningu.


Um það bil 4.000 einstaklingar láta lífið og hundruð þúsunda slasast í umferðinni í heiminum á degi hverjum. Enn fleiri þurfa að takast á við áföll, sorgir og eftirsjá af völdum þessa.

Mikil áhersla hefur verið lögð á fræðslu og leiðbeiningar sem m.a. hefur leitt til breytts viðhorfs til áhættuhegðunar eins og hraðaksturs og ölvunaraksturs hér á landi. Nýrri tækni fylgja nýjar áskoranir og er farsímanotkun við akstur áhættuhegðun sem hefur stórlega aukist á undanförnum árum og hefur mikil áhrif á hegðun ökumanna og veldur það hvað mestum áhyggjum í umferðaröryggismálum heimsins í dag. Samgöngustofa hefur á undanförnum árum staðið fyrir herferðum gegn farsímanotkun undir stýri sem hefur verið sérstaklega beint að ungu fólki. Á þessu ári hefur auknu fjármagni verið veitt í þessa baráttu og eru í því sambandi ýmis verkefni nú þegar í framkvæmd og undirbúningi. Ökumenn eru hvattir til þess að „gera ekki neitt“ þegar síminn kallar á athygli þegar þeir eru að keyra.

Haraldur Jónasson / Hari


Miklar kröfur eru gerðar til öryggis bifreiða og samgöngumannvirkja og áhersla lögð á skilvirka löggæslu. Framan af þessari öld hefur umferðarslysum fækkað og lengst af höfum við verið meðal þeirra þjóða sem hvað bestum árangri ná í umferðaröryggismálum. Nú stefnir hins vegar í aðra átt. Árið 2015 fjórfaldaðist fjöldi látinna frá árinu 2014, fór úr 4 í 16 manns. Árið 2015 var fjöldi látinna 18 og árið 2016 var fjöldi látinna 16. Það sem af er þessu ári hafa 13 manns látið lífið í umferðinni.
Á fyrstu 8 mánuðum ársins 2017 er fjöldi alvarlega slasaðra og látinna 133 en var á sama tímabili í fyrra 145.

Haraldur Jónasson / Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert