Enn einhver hreyfing í eldstöðinni

Þrír skjálftar mældust við Öræfajökul í gærkvöldi og í nótt.
Þrír skjálftar mældust við Öræfajökul í gærkvöldi og í nótt. Rax / Ragnar Axelsson

Þrír jarðskjálftar mældust við Öræfajökul í gærkvöldi og í nótt, að sögn sérfræðings hjá Veðurstofunni. Voru þeir þó allir undir 1 að stærð og ekki hægt að túlka þá sem forboða.

„Þetta eru skjálftar sem segja okkur að það sé enn einhver hreyfing í eldstöðinni.“ Að sögn er ástandið að öðru leyti óbreytt.

Vís­inda­menn Jarðvís­inda­stofn­un­ar Há­skóla Íslands og Veður­stof­unn­ar ásamt full­trú­um al­manna­varna flugu yfir Öræfa­jök­ul í gær. Farið var á þyrlu Land­helg­is­gæsl­unn­ar og flug­vél Isa­via auk þess sem vís­inda­menn voru við árn­ar og söfnuðu vatni. Gerðar voru mæl­ing­ar á gasi og raf­leiðni vatns í ám, vatns­sýn­um safnað og yf­ir­borðshæð jök­uls­ins mæld í öskju Öræfa­jök­uls.

Sig­ketill­inn sem greint var frá í fyrradag var meðal ann­ars mæld­ur og er hann um 1 km í þver­mál og 15-20 m djúp­ur. Vatn úr katl­in­um renn­ur í Kvíá og á meðan svo er eru ekki tald­ar mikl­ar lík­ur á um­tals­verðu jök­ul­hlaupi.

Ljóst er að veru­leg­ur jarðhiti er kom­inn upp í öskju Öræfa­jök­uls en ekki eru nein merki að eld­gos sé að hefjast. Veru­leg óvissa er þó um fram­hald þeirr­ar at­b­urðarás­ar sem nú er í gangi, en náið verður fylgst með henni af hálfu vísindamanna.

Í dag verður áfram unnið úr gögn­um frá ferðum gærdags­ins og verður óvissu­stig al­manna­varna áfram í gildi meðan sú vinna fer fram. Litakóði Öræfa­jök­uls vegna flugs verður áfram gul­ur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert